Styrki það að setja sig í þrot til að losna undan ábyrgð

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar telur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli fjögurra Rúmena gegn starfsmannaleigunni Menn í vinnu vekja upp margar spurningar. Telur hann dóminn styrkja hegðun þeirra sem fara í þrot til þess að reyna að komast undan ábyrgð í kjaramálum. 

Málið var rekið með aðstoð Efl­ing­ar, en starfs­mennirnir sem unnu hjá Mönnum í vinnu höfðu meðal ann­ars gert marg­vís­leg­ar at­huga­semd­ir við upp­gjör launa og aðbúnað starfs­fólks­ins.

Þekktasta og algengasta leiðin til að komast undan ábyrgð

„Aðalrökin fyrir frávísun eru þau að starfsmannaleigan hafi orðið gjaldþrota og þar með teljist Eldum rétt einnig laust undan ábyrgð. Ég held að þetta teljist vægast sagt þröng túlkun á keðjuábyrgð þar sem verið er að styrkja gjaldþrot sem undankomuleið lagalegrar ábyrgðar. Með þessari túlkun er vandséð að lögin geti náð tilætluðum árangri því gjaldþrot er þekktasta og algengasta leiðin til þess að skjóta sér undan ábyrgð í kjaramálum,“ segir Viðar. 

Niðurstaða dóms­ins var að vísa frá öll­um kröf­um á hend­ur Eld­um rétt og þrota­búi Manna í vinnu og sýkna fyrr­ver­andi stjórn­end­ur Manna í vinnu. Í dóminum var farið ítarlega í hvern lið ásakana á hendur starfsmannaleigunni og var öllum kröfum Rúmenanna hafnað þar sem ekkert þótti hæft í ásökunum um lélegan aðbúnað eða uppgjör launa. 

Meta það hvort málinu verði áfrýjað

„Það er að finna vissa efnisumfjöllun en þar er jafnvel farið með rangt mál. Eins og þegar segir að ekki hafi verið farið til lögreglu með málið þegar upplýst var um aðbúnað þessara einstaklinga. Það mál er í virkri rannsókn eftir að Efling lagði fram þá kæru árið 2020. En að öðru leyti er alltaf matsatriði hversu háan sönnunarþröskuld á að setja varðandi aðbúnað sem þessir félagsmenn Eflingar þurftu að lifa við,“ segir Viðar. 

Þá telur Viðar einnig það vera bagalegt að dómurinn samþykki það að að dregin hafi verið af mönnum laun fyrir húsaleigu jafnvel þó enginn húsaleigusamningur hafi verið til staðar. 

Verður málinu áfrýjað? 

„Við erum að meta það og ég held að það sé óhætt að segja það að margt í dóminum veki fleiri spurningar en svör,“ segir Viðar. 

Málskostnaður sem féll á rúmensku starfsmennina nemur fjórum milljónum króna og að sögn Viðars mun Efling standa straum að þeim kostnaði. 

mbl.is