Tilslökunum fagnað í Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við fórum yfir málin í kjölfar nýrrar reglugerðar og tökum mjög vel í þessar tilslakanir,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við mbl.is. Í há­skól­um og mennta­skól­um má staðnám fara fram að öllu leyti, svo fremi sem ekki séu fleiri en 150 í sama rými samkvæmt nýjum sóttvarnaráðstöfunum sem tóku gildi á miðnætti. 

„Þetta er töluvert mikil tilslökun og nemendur eru velkomnari en áður. Við fögnum því,“ segir Jón Atli en neyðarstjórn Háskóla Íslands fundaði í morgun vegna þessara rýmkana.

Jón Atli segir að stjórnendur skólans muni taka sér tíma fram yfir helgi til að skipuleggja hvernig skólastarfi verður háttað og mun hann senda út tilkynningu þess efnis á föstudag.

„Þó að reglugerðin hafi tekið gildi á miðnætti þurfum við tíma til að skipuleggja hvernig að þessu verður staðið.“

Aðalbygging Háskóla Íslands.
Aðalbygging Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rektor segir sveigjanleika fást með nýrri reglugerð en í mörgum tilvikum hafi kennarar verið búnir að skipuleggja fjarkennslu út önnina.

„Spurningin er hvernig verður brugðist við. Verður þetta alfarið í stofum eða hvernig verður það? Í flestum tilvikum verður hægt að bjóða upp á streymi og þess háttar en við erum bara að fara yfir það. Ég mun senda út okkar útfærslu á þessu,“ segir rektor.

„Þetta er töluvert mikil tilslökun og nemendur eru velkomnari en áður. Við fögnum því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert