Vefurinn verði tilbúinn í næstu lotu

Gríðarlegt álag var á vef Veðurstofunnar þegar stóri skjálftinn varð …
Gríðarlegt álag var á vef Veðurstofunnar þegar stóri skjálftinn varð í morgun.

Þetta þarf að laga og við ætlum að vera tilbúin í næstu lotu,“ segir Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs hjá Veðurstofu Íslands. Vefur Veðurstofunnar hökti og lá niðri í nokkrar mínútur eftir stærsta jarðskjálftann í morgun.

Auk þess lá vefur almannavarna niðri í um klukkustund eftir að stærsti skjálftinn varð klukkan 10.05 í morgun.

Ingvar segir að eftir stóran jarðskjálfta í október hafi Veðurstofan fengið fjárveitingar frá ríkisvaldinu til að reyna að koma í veg fyrir að vefsíðan færi á hliðina við mikið álag. Ýmislegt er búið að gera en greinilega ekki nóg:

„Við sáum í morgun að við stóðum okkur aðeins betur. Við viljum að vefurinn hangi uppi, ekki að hann fari að hökta eða sé með þannig svartíma að fólk finni alvarlega fyrir því,“ segir Ingvar.

„Við töldum okkur vera komin með nógu mikið til að mæta svona álagi en það tókst ekki. Við skíttöpuðum síðast en við töpuðum líka þessum leik.“

Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs hjá Veðurstofu Íslands.
Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs hjá Veðurstofu Íslands.

Hann kveðst ekki vera með nákvæmar tölur um hversu margir notendur heimsóttu vefinn í morgun þegar mest lést.

„Mig grunar samt að það hafi verið svona 70 til 80 þúsund notendur á tíu mínútur. Það er ansi mikið en erum að gíra okkur upp í að geta ráðið við 100 þúsund notendur á svo stuttum tíma. Ef við ráðum við það erum við í góðum málum,“ segir Ingvar.

Auk þess segir Ingvar að starfsfólk Veðurstofunnar „djöflist“ í því að hafa einhverjar upplýsingar á vefsíðunni. Í morgun liðu upp undir þrjár mínútur þangað til upplýsingar fengust um skjálftann og þá átti eftir að birta hann á vefnum og birtust þær upplýsingar þar fimm mínútum eftir skjálfta.

„Við viljum líka vinna í því að koma upplýsingum um skjálfta á vefinn tveimur mínútum eftir að hann verður,“ segir Ingvar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert