Viljayfirlýsing um kaup á hlutum í Landsneti

mbl.is/​Hari

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafa fyrir hönd ríkissjóðs undirritað viljayfirlýsingu við orkufyrirtækin Landsvirkjun, RARIK ohf., Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða, sem eigendur alls hlutafjár í Landsneti hf., um að ganga til viðræðna um kaup ríkisins á hlutum félaganna í Landsneti hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Með viljayfirlýsingunni lýsa allir hlutaðeigandi aðilar sig reiðubúna til að ganga til formlegra viðræðna um kaup og sölu hlutafjár í Landsneti hf., með það að markmiði að ná samningi þar um á þessu ári.  

Slík breyting á eignarhaldi Landsnets hf. hefur verið til skoðunar um langt skeið og er í samræmi við nýsamþykkta orkustefnu fyrir Ísland, „Sjálfbær orkuframtíð, Orkustefna til ársins 2050“, sem var kynnt 2. október í fyrra.

„Í orkustefnu kemur fram að mikilvægt sé að ljúka eigendaaðskilnaði flutningsfyrirtækisins þannig að því verði komið alfarið í beina opinbera eigu. Hlutlaust eignarhald er grundvöllur gegnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert