Ekkert nýtt smit innanlands

mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær. Einn bíður niðurstöðu mótefnamælingar á landamærunum. Nýgengi smita innanlands miðað við 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar er 1,4 en 4,6 á landamærunum. 

Síðast greindist einhver utan sóttkvíar 1. febrúar en þá höfðu liðið 12 dagar frá því síðustu smit utan sóttkvíar voru greind hér á landi. Alls hafa greinst 10 smit í febrúar. Nú eru 15 í einangrun og 20 í sóttkví. Alls eru 906 í skimunarsóttkví. 

Tekin voru 448 sýni innanlands í gær og 498 á landamærunum. 

Ekkert barn á Íslandi er með Covid-19. Alls eru 9 á aldrinum 18-29 ára með Covid-19 og 3 á fertugsaldri. Eitt smit er í aldurshópnum 40-49 ára og hið sama á við um 50-59 ára og 60-69 ára.

Þurfa ekki að framvísa PCR-prófi

Ferðamenn frá Grænlandi eru nú undanþegnir kröfum um framvísun á vottorði um neikvætt PCR-próf, skimun og sóttkví vegna Covid-19 við komuna til Íslands.

Skilyrði fyrir undanþágunni er að ferðamaðurinn hafi ekki heimsótt land eða svæði sem flokkast sem áhættusvæði 14 dögum fyrir komu til Íslands.

Þeir einstaklingar sem hafa verið á áhættusvæði 14 dögum fyrir komu þurfa að framvísa neikvæðu PCR-prófi, fara í skimun á landamærum, sóttkví og í aðra sýnatöku fimm dögum eftir heimkomu samanber reglugerð sem tók gildi 19. febrúar 2021.

Það fækkaði um einn í einangrun á milli daga en sá var staðsettur á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru nú 10 í einangrun en 7 í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 2 í einangrun en enginn í sóttkví og á Suðurlandi er 1 í einangrun en 2 í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru 2 í einangrun en enginn í sóttkví og einn er í sóttkví óstaðsettur í hús.

mbl.is