Háskaleg myndataka á jarðskjálftadegi

Hvað eru þetta margir bollar? 102, telst blaðamanni til.
Hvað eru þetta margir bollar? 102, telst blaðamanni til. Facebook/Nalli Íjuson

Meðlimur í níu þúsund manna facebookhópnum Múmínmarkaðnum var hvergi banginn þegar hann valdi daginn í gær til að stilla upp múmínbollasafni sínu og taka af því mynd.

Athugasemdum við færslu hans rigndi inn og sneru flestar að tímasetningu myndatökunnar: Langt er síðan meiri jarðskjálftavirkni hefur mælst á sunnanverðu landinu, ástand sem náði hámarki um tíuleytið í gærmorgun með skjálfta að stærð 5,7 á Reykjanesskaga.

„Ég treysti því að það kæmi ekki jarðskjálfti á meðan ég var að leika … Storka örlögunum og hlæja í andlitið á hættunni,“ svaraði notandinn, sem kallar sig Nalla Íjuson, þegar fólk krafðist skýringa á athæfi hans.

Sumir lýstu því í athugasemd hvernig þeir hefðu brugðist við jarðskjálftunum og ein birti mynd af bollasafninu þar sem því hafði verið forðað niður úr hillu. Allur er varinn góður.

Seinna um daginn birti Nalli aðra færslu inn í hópinn og tilkynnti að bollarnir væru allir komnir í öruggt skjól.

mbl.is