Nýtt verk eftir Ólaf Elíasson mánaðarlega

Þann þrettánda maí næstkomandi verða tíu ár liðin frá því að Harpa opnaði dyr sínar fyrir almenning. Í tilefni af því verður boðið upp á fjölbreytta afmælisdagskrá í ár sem hefst í kringum sumardaginn fyrsta, og lýkur á fullveldisdaginn 1. desember. 

Harpa var formlega opnuð þann 13. maí árið 2011og vígð á menningarnótt þegar ljósin voru tendruð í fyrsta sinn á glerhjúpnum. 

Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu kynnti helstu áherslur afmælisársins í Eldborg í dag. 

„Við erum að undirbúa afmælisfögnuð sem fer af stað í kringum sumardaginn fyrsta. Við ætlum meðal annars að bjóða tíu ára börnum að taka þátt í því að semja nýtt afmælislag fyrir Hörpu. Svo má nefna að Ólafur Elíasson hefur hannað tólf ný ljósverk á hjúp Hörpu og verður nýtt verk sýnt í hverjum mánuði,“ segir Svanhildur í samtali við mbl.is. 

Afmælislagið verður frumflutt við hátíðlega athöfn í maí næstkomandi en á vordögum mun Harpa beina ljósinu að ungmennum og fjölskyldum og standa fyrir viðburðum til að byggja upp þátttöku og upplifun fyrir þessa hópa. Áherslan í ár er einnig að ná til nýrra hópa sem hafa hingað til ekki mikið sótt Hörpu og tengja við sem flesta með því að kalla eftir sögum, minningum og myndum.

Á árinu verður einnig farið í tilteknar breytingar á jarðhæð Hörpu og segir Svanhildur stefnt að því að allt verið tilbúið fyrir menningarnótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert