Ólafur Þór vill leiða listann

Ólafur Þór Gunnarsson alþingismaður.
Ólafur Þór Gunnarsson alþingismaður.

Ólafur Þór Gunnarsson alþingismaður gefur kost á sér til að leiða lista VG í kraganum.

„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til að leiða lista VG í kraganum í kosningunum í haust. Ég hef starfað innan hreyfingarinnar og að framgangi hennar og vil áfram vinna að þeim málum sem ég brenn fyrir. Á þingi hef ég beitt mér sérstaklega fyrir málefnum eldra fólks og velferðarmálum almennt. Ég hef lagt fram fjölda þingmála í þá veru, m.a. um réttindi eldra fólks, þjónustu við aldraða og stöðu þeirra í samfélaginu. Þá hef ég einnig lagt mikla áherslu á heilbrigðismál, uppbyggingu öflugs opinbers heilbrigðiskerfis og eflingu heilsugæslunnar. Ég hef víðtæka reynslu af heilbrigðis- og velferðarmálum, eftir að hafa starfað á þeim vettvangi í um 30 ár. Þá hef ég einnig starfað sem bæjarfulltrúi í stóru sveitarfélagi og hef því skilning á þörfum sveitarfélaganna og íbúa þeirra, og mikilvægi góðrar þjónustu við íbúa. Umhverfismál og hvernig þau snerta þéttbýlið sérstaklega hafa einnig verið mér hugleikin, t.a.m. loftgæði í þéttbýli, borgarlína, umferðarmál og skipulagsmál í þéttbýli yfirleitt.

Verkefnin eru víða við frekari uppbyggingu velferðarsamfélagsins. Við þurfum að ljúka byggingu Landspítalans, halda áfram að efla heilsugæsluna og byggja upp öldrunarþjónustu í samvinnu við sveitarfélögin. Það er nauðsynlegt að stíga djörf skref í umhverfismálum og náttúruvernd. Loftslagsmál eru mál sem varða okkur öll og framtíð barnanna okkar og komandi kynslóða,“ segir Ólafur í fréttatilkynningu.

Ólafur hefur setið á þingi þetta kjörtímabil, en starfaði áður sem öldrunarlæknir og sat í bæjarstjórn Kópavogs frá 2006 til 2017. Þetta kjörtímabil hefur Ólafur verið varaformaður velferðarnefndar og einnig setið í efnahags- og viðskiptanefnd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert