Vill skýrslu vegna flutnings skimunar

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, hefur óskað eftir því að heilbrigðisráðherra láti vinna skýrslu fyrir Alþingi um forsendur og áhrif breytinga á skipulagi skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Skýrslan verði unnin af óháðum aðila.

Að baki beiðninni eru, auk alls þingflokks Viðreisnar, fulltrúar Samfylkingarinnar, Miðflokksins og Pírata, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Skimun varðar heilsu og líf kvenna og mikilvægt er að traust ríki í garð heilbrigðiskerfisins og sátt sé um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu. Markmiðið með skýrslubeiðni er að stuðla að því unnt verði að efla traust kvenna og alls almennings til kerfisins. Rýna þarf forsendur að baki þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra að semja við erlenda rannsóknarstofu um að sinna greiningum á sýnum sem og samráð heilbrigðisráðuneytis áður en ákveðið var að flytja vinnunna til Danmerkur,“ segir í tilkynningunni.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram kemur að í skýrslunni skuli könnuð áhrif flutningsins á kostnað við greiningu sýna, áhrif breytinganna á öryggi skimunar, meðal annars vegna aðgengis, flutninga og samskipta milli landa og áhrif á sérhæfð störf við greiningar hérlendis sem og áhrif á aðra rannsóknar- og greiningarvinnu hérlendis.

Einnig skal kannað hvort heilbrigðisráðuneytið hafi lagt mat á greiningargetu meinafræðideildar Landspítalans og áhrif flutnings á aðgengi að sýnum fyrir íslenska sérfræðinga heilbrigðiskerfisins.

Bent er á að Læknafélag Íslands hafi ályktað að með því að flytja úr landi rannsóknarhluta krabbameinsleitar í leghálsi séu mikilvæg sérhæfð störf lögð niður og flutt úr landi.

Undir þetta hafi Skimunarráð, landlæknir, Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Félag íslenskra rannsóknarlækna og meirihluti fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini tekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert