Yngst í sögu Bifrastar til að ljúka grunnnámi

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, fyrir miðju, við útskriftina frá Háskólanum á …
Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, fyrir miðju, við útskriftina frá Háskólanum á Bifröst. Ljósmynd/Aðsend

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir er yngsti nemandinn í sögu Háskólans á Bifröst til að ljúka grunnnámi frá skólanum en Þórhildur er ekki nema 20 ára gömul, fædd árið 2000.

Þar að auki hlaut Þórhildur við útskriftina verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn í félagsvísinda- og lagadeild en Þórhildur útskrifaðist úr BA-námi í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. 76 nemendur brautskráðust frá Háskólanum á Bifröst á laugardaginn var, 20. febrúar.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Þórhildur það aldrei hafa verið markmiðið að klára á svona stuttum tíma. Það hefði bara viljað svo til. „Ég var ári á undan í grunnskóla þannig að ég sleppti níunda bekk, fór bara beint úr áttunda bekk í tíunda bekk og svo útskrifaðist ég úr menntaskóla á tveimur og hálfu ári,“ sagði Þórhildur og bætti við: „Að klára menntaskólann á svona stuttum tíma var eiginlega bara tilviljun, ég var ekki alveg að fylgjast nógu mikið með hvað ég var búin að taka margar einingar.“ Þórhildur sagði síðan námið á Bifröst skipulagt sem nám til tveggja og hálfs árs. Hún lauk þannig hverju skólastigi á skemmri tíma en almennt gengur og gerist.

Nóg að gera og alltaf gaman

Þórhildur hefur haft í nógu að snúast síðustu ár. Eftir menntaskólann tók hún sér hlé og fór í lýðháskóla í Danmörku áður en hún byrjaði í háskóla árið 2018. Með skólanum hefur Þórhildur svo unnið í félagsmiðstöð ásamt því að vera skátaforingi hjá börnum í þriðja og fjórða bekk. Auk þess útskrifaðist Þórhildur með diplómu í kínversku frá Háskóla Íslands sumarið 2020 svo hún hefur aldeilis ekki setið aðgerðalaus. Aðspurð segist Þórhildur ekki hafa of mikið að gera. „Ég hef alltaf verið svona, bara nóg að gera og alltaf gaman.“

Stefnan sett á frekara nám

Þórhildur segir stefnuna setta á meistaranám í haust. „Ég er ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætla að fara að læra. Ég vinn í félagsmiðstöð núna og er að skoða tómstunda- og félagsmálafræðina en ég er líka að skoða nám í útlöndum, ég er bara enn að ákveða mig.“

Þórhildur segist ekki luma á neinum töfraráðum fyrir aðra nemendur. „Hjá mér er það bara að lesa skólabækurnar og vinna verkefnin tímanlega.“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. febrúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert