Bæjarbúar rólegir miðað við aðstæður

Fannar Jónasson.
Fannar Jónasson.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir íbúa bæjarins tiltölulega rólega miðað við aðstæður en töluvert hefur verið um nokkuð stóra eftirskjálfta á Reykjanesskaga í dag.

„Þetta fór í gang með talsverðum krafti á miðvikudaginn, svo rénaði þetta á milli og síðan kemur þetta núna á nýjan leik,“ segir Fannar. Hann nefnir að engin merki séu um gosóróa, samkvæmt upplýsingum vísindamanna, og að gasmælingar bendi ekki til kvikuinnskots svo vitað sé.

Tveir fjarfundir voru haldnir með vísindamönnum í dag varðandi stöðuna og þar kom fram að hún sé lítið breytt frá því sem verið hefur.

Aftur verður fundað í hádeginu á morgun. „Þessu er stjórnað af almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Við erum að fræðast um það sem er nýjast að gerast og bera saman bækur okkar,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert