Eftirlitsnefnd lögreglu skoðar Ásmundarsalsmál

Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu er með Ásmundarsalsmálið til …
Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu er með Ásmundarsalsmálið til umfjöllunar. Eggert Jóhannesson

Nefnd sem hefur eftirlit með störfum lögreglu er með aðkomu lögreglu að svokölluðu Ásmundarsalsmáli til umfjöllunar. Verið er að skoða samskipti lögreglu þegar komið var að í Ásmundarsal og samskipti í við fjölmiðla í framhaldinu. Þá stendur einnig til að athuga hvort að það sem fram kemur á upptöku og það sem skrifað er í skýrslu lögreglu samræmist.   

Skúli Þór Gunnsteinsson er formaður nefndarinnar. Hann segir að málið verði tekið fyrir og unnið þegar öll gögn málsins eru komin til nefndarinnar. Lögregla hefur þegar skilað skjölum málsins en upptökur af umræddu kvöldi á Þorláksmessu hafa ekki borist nefndinni.

Skúli Þór Gunnsteinsson er formaður nefndar um eftirlit með störfum …
Skúli Þór Gunnsteinsson er formaður nefndar um eftirlit með störfum lögreglu.

Eins og áður hefur komið fram var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra staddur í salnum þegar lögregla leysti upp samkomu vegna meintra brota á sóttvarnarlögum. Í dagbókarfærslu lögreglu kom fram að „hæstvirtur ráðherra“ hafi verið í samkvæminu. Heyrst hafa gagnrýnisraddir um að persónugreinanleg gögn birtist í dagbókarfærslu lögreglu.  

Kvörtun barst frá lögmanni eigenda 

Að sögn Skúla hefur verið óskað eftir því að eftirlitsmyndir úr búkmyndavélum verði sendar nefndinni en lögreglustjóri hefur hafnað því á meðan rannsókn málsins fer fram hið minnsta. Hann segir að nefndin líti svo á að henni sé heimilt að afla gagnanna en lögreglustjóri lítur öðruvísi á málið. Ágreiningur er um túlkun lagaákvæðis um upplýsingarétt nefndarinnar. 

Að sögn Skúla var málið tekið upp að frumkvæði nefndarinnar en einnig barst kvörtun frá lögmanni eigenda Ásmunarsalar til lögreglu vegna starfshátta í málinu. Til áréttingar snýr umfjöllun nefndarinnar ekki að rannsókn málsins heldur eingöngu að aðkomu lögreglu á staðinn og hvað fór þar fram auk samskipta við fjölmiðla í framhaldinu. Lögreglu og ákæruvaldsins er hins vegar að meta það hvort sóttvarnarlög hafi verið brotin. 

Bjarni Benediktsson var meðal gesta í Ásmundarsal að kvöldi Þorláksmessu.
Bjarni Benediktsson var meðal gesta í Ásmundarsal að kvöldi Þorláksmessu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er ekki mjög yfirgripsmikið mál og nefndin ætti að geta afgreitt málið mjög fljótt ef hún fær öll gögn í hendurnar,“  segir Skúli. 

Hefð fyrir því að farið sé að fyrirmælum 

Tilmæli nefndarinnar eru ekki bindandi en líkt og er með Umboðsmann Alþingis t.a.m. er hefð fyrir því að farið sé eftir fyrirmælum hennar.  Þegar nefndin fær kvörtun til sín er hún yfirfarin og gögn skoðuð. Ef kvörtunin er tilhæfulaus, þá er málinu lokið en ef kvörtun sé það ekki er málið sent áfram til viðkomandi lögreglustjóra til meðferðar og jafnvel send óbindandi tilmæli, telur nefndin tilefni til. Síðan fylgist nefndin með því að málið sé afgreitt hjá viðkomandi lögreglustjóra.

Nefndina skipa Skúli sem er formaður nefndarinnar. Hann er menntaður lögfræðingur og er tilnefndur af ráðherra. Þorbjörg Inga Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður er tilnefnd af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður er tilnefnd af Lögmannafélagi Íslands.

mbl.is