Gistinóttum fækkaði um 89%

Mörg hótel hafa verið byggð á Íslandi á síðustu árum.
Mörg hótel hafa verið byggð á Íslandi á síðustu árum. mbl.is/Árni Sæberg

Greiddar gistinætur á öllum tegundum gististaða í janúar síðastliðnum drógust saman um 89% samanborið við janúar 2020. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 90%, um 88% á gistiheimilum og um 76% á öðrum tegundum skráðra gististaða.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 57.000 í janúar en þær voru um 495.000 í sama mánuði árið áður. Um 78% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 44.000, en um 22% á erlenda gesti eða um 13.000 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 36.000, þar af 29.400 á hótelum.

Þar sem landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands liggur niðri, vegna mikillar fækkunar brottfara frá Keflavíkurflugvelli, var ekki unnt að áætla fjölda erlendra gistinátta á stöðum sem miðla heimagistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður en þær voru um 61.000 í janúar 2020.

Framboð hótelherbergja í janúar minnkaði um 44% frá janúar 2020. Herbergjanýting á hótelum var 9,3% og dróst saman um 39,7 prósentustig frá fyrra ári.

mbl.is