Hvert tilfelli á Íslandi alvarlegt

Logan Smith Sigurðsson, formaður Stop the Traffik Ísland, hélt tölu í málstofu Eflingar um mansal á Íslandi, sem fram fór í dag. Logan er sjálf þolandi mansals og hún segir að á Íslandi séu miklir innviðir til staðar til þess að sporna gegn mansali. Hins vegar verði fjölbreyttara starfslið að vinna innan þeirra innviða, til þess að öll úrræði endurspegli betur þann hóp á Íslandi sem verður fyrir mansali.

Málþing Eflingar hefur staðið síðan 23. febrúar og hafa margir sérfræðingar rætt um mansal á Íslandi. Fundinn má nálgast á vefsíðu Eflingar.

Logan Smith Sigurðsson, formaður Stop the Traffik Iceland.
Logan Smith Sigurðsson, formaður Stop the Traffik Iceland. Ljósmynd/Aðsend

Innflytjendur í meiri hættu

Logan hóf mál sitt á því að lýsa hve innflytjendur eru í meiri hættu á því að verða fórnarlömb mansals. Fólk sem kemur hingað til lands erlendis frá sé jaðarsettara, eigi smærra tengslanet og eigi erfiðara með að fá upplýsingar um þá þjónustu sem hér er í boði. Það sé veruleiki fæstra innfæddra Íslendinga að geta einn daginn verið hnepptir í vinnu- eða kynlífsþrælkun með mansali.

Hún segir einnig að mikill munur sé á kynlífsþrælkun og vinnuþrælkun og að viðbragð við þessu tvennu verði að vera ólíkt. Oft sé viðbragð fólks við kynlífsþrælkun eins konar áfallameðferð sem miðuð sé út frá tilfinningalegu áfalli sem þolandinn verður fyrir, sem Logan segir að sé gott. Hins vegar verði hið sama að einkenna viðbragð við vinnuþrælkun, þar sem þolendur þess konar mansals verði ekki síður fyrir tilfinningalegum áföllum.

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, stýrði umræðum málstofunnar og spurði Logan að því hvernig hún teldi að best mætti auka varnir og viðbragð við mansali hér á landi. Logan sagði að innviðir íslensks samfélags væru góðir en að sýnileika þeirri mætti auka. Fræðsla, þjálfun og kennsla þeirra sem bregðast við mansali verði að vera góð og sýnileiki þeirra mikill svo þolendur mansals viti hvert hægt sé að leita.

Hvert tilfelli alvarlegt

Þá sagði Logan að aukin neytendavitund geti einnig hjálpað. Ef neytendur eru upplýstir um mansal, áhrif þess og afleiðingar, ásamt því að vera upplýstir um hvaða fyrirtæki noti mansal sér til hagsbóta. Þannig geti fólk valið að eiga ekki viðskipti við slík fyrirtæki.

Að lokum sagði Logan að það sé mikilvægt að útrýma mansali, sama hversu lítið það virðist í hverju landi fyrir sig. Á Íslandi geti mansal verið eitthvað sem virðist fjarlægt vandamál í fjarlægum löndum og því megi tölur frá öðrum löndum ekki vera sem eitthvert viðmið um hvernig gangi hér á landi að uppræta mansal. Hvert tilfelli mansals á Íslandi er alvarlegt, segir Logan, sama hvort tilfellin séu fá eða mörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert