Kristín Thoroddsen vill 3. sæti í Suðvesturkjördæmi

Kristín Thoroddsen.
Kristín Thoroddsen. Ljósmynd/Aðsend

Kristín Thoroddsen, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar í haust.

Hún segir mikilvægt að fram verði boðinn sterkur og sigurstranglegur listi á vegum flokksins, sem endurspegli þverskurð samfélagsins. Sjálfstæðisstefnan sé best til þess fallin að takast á við áskoranir eftir farsóttina, lækka þurfi skatta og létta á íþyngjandi reglum og veita þannig fólkinu í landinu svigrúm til frelsis. „Með dugnaði landsmanna, skýrri sýn á framtíðina og stefnu flokksins byggjum við aftur upp sterkt samfélag. Ég vil leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að stefna flokksins verði höfð að leiðarljósi í þeirri vegferð sem framundan er og býð því fram krafta mína.“

Kristín er 52 ára Hafnfirðingur, bæjarfulltrúi og formaður fræðsluráðs og hafnarstjórnar þar í bæ. Hún er jafnframt varaþingmaður í Suðvesturkjördæmi og formaður sjálfstæðisfélagsins Fram í Hafnarfirði. Kristín er BA í ferðamálafræði og lauk MBA-námi frá Háskóla Íslands árið 2019. Hún á fjögur börn með Steinari Bragasyni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert