Landsréttur sneri við nauðgunardómi

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra og sýknað karlmann af nauðgun.

Maðurinn var dæmdur í tveggja ára fangelsi í héraðsdómi í janúar í fyrra fyrir að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við þáverandi eiginkonu sína á hótelherbergi árið 2014, án hennar samþykkis. Fram kom að hann hefði notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga.

Auk þess að sýkna manninn vísaði Landsréttur einkaréttarkröfu konunnar frá dómi en maðurinn hafði verið dæmdur í héraði til að greiða henni 1,5 milljónir króna í miskabætur.

Ekki hægt að sanna ásetning

„Landsréttur taldi óhjákvæmilegt að horfa til þess að X og A hefðu verið áralangt í hjúskap og hefðu ákveðið að deila herbergi og rúmi þegar atvikið hefði átt sér stað og hefðu á þessum tíma ekki verið búin að gera að fullu upp hug sinn um að ljúka sambandinu,“ segir í útdrætti Landsréttar.

„Einnig hefðu X og A bæði borið um að við mótmæli A hefði X umsvifalaust hætt tilraunum sínum til kynferðislegra atlota og beðist afsökunar. Með vísan í framburð þeirra beggja hefði A ekki verið undir áhrifum áfengis eða lyfja og þeim borið saman um að atvikið hefði gerst fimm til tíu mínútum eftir að A hefði komið upp í rúmið og lagst við hliðina á X. Var ekki talið að ákæruvaldinu hefði tekist að sanna svo að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að X hefði í umrætt sinn haft ásetning til að hafa önnur kynferðismök við A gegn vilja hennar,“ segir þar einnig.

Því var ákveðið að sýkna manninn og vísa einkaréttarkröfu konunnar frá héraðsdómi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert