Nýgengi smita 0,3

Covid-19 smitum hefur fækkað hratt á Íslandi síðustu vikur.
Covid-19 smitum hefur fækkað hratt á Íslandi síðustu vikur. AFP

Ekkert smit greindist innanlands í gær og 14 eru nú í einangrun. Í sóttkví eru 17 og 719 eru í skimunarsóttkví. Einn bíður niðurstöðu mótefnamælingar á landamærunum. 

Nýgengi innanlands miðað við hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur er 0,3 og hefur ekki verið lægra síðan 22. júlí en á landamærunum er nýgengi smita 3,6.

Síðast greindist einhver utan sóttkvíar 1. febrúar en þá höfðu liðið 12 dagar frá því síðustu smit utan sóttkvíar voru greind hér á landi. Alls hafa greinst 10 smit í febrúar. 

Tekin voru 470 sýni innanlands í gær og 412 á landamærunum. 

Ekkert barn á Íslandi er með Covid-19. Alls eru 9 á aldrinum 18-29 ára með Covid-19 og 3 á fertugsaldri. Eitt smit er í aldurshópnum 50-59 ára og einnig er eitt smit í aldurshópnum 60-69 ára.

Á höfuðborgarsvæðinu eru nú 9 í einangrun en 14 í sóttkví. Á Suðurnesjum eru 2 í einangrun en enginn í sóttkví og á Suðurlandi er 1 í einangrun en 2 í sóttkví. Á Norðurlandi eystra eru 2 í einangrun en enginn í sóttkví og einn er í sóttkví óstaðsettur í hús.

mbl.is