Óháðir aðilar geri úttekt vegna skimana

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

Samtök yfirlækna á Landspítala fara fram á að óháðir aðilar geri úttekt á ferlinu innan stjórnsýslunnar varðandi breytingar á skipulagi skimana fyrir leghálskrabbameini.

Fram kemur í ályktun samtakanna að ákvörðun heilbrigðisyfirvalda um að allar rannsóknir á leghálsskimunarsýnum verði fluttar frá Íslandi til Danmerkur hafi verið tekin þvert á nýlegt álit skimunarráðs, embættis landlæknis, meirihluta fagráðs um leghálsskimanir og verkefnastjórnar um framkvæmd breytingar á krabbameinsskimunum.

„Með ólíkindum að yfirvöld hafi hunsað álit“

„Samtök yfirlækna á Landspítala (SYL) telja að það sé með ólíkindum að yfirvöld hafi hunsað álit áðurnefndra fagaðila og tekið þá ákvörðun að nýta ekki fullkominn nýjan búnað og faglega þekkingu á sýkla- og veirufræðideild Landspítala til HPV-greininga, sem og greiningarhæfi og faglega sérþekkingu meinafræðideildar til að sinna þessari mikilvægu heilbrigðisþjónustu,“ segir í ályktuninni.

„Greining á leghálsskimunarsýnum er algeng rannsókn og rannsóknadeildum Landspítalans er vel treystandi til að gera slíkar rannsóknir á sama hátt og aðrar flóknar rannsóknir. Gæði og öryggi slíkra rannsókna yrði að sjálfsögðu tryggt á sama hátt og fyrir aðrar rannsóknir sem framkvæmdar eru innan veggja Landspítalans,“ segir þar einnig.

Fram kemur að spurningar vakni um hvað liggur að baki ákvörðuninni, svo sem um vantraust stjórnvalda á íslenskum rannsóknarstofum, ákvarðanir innan stjórnsýslunnar sem séu ekki samræmi við faglega ráðgjöf eða hvort aðrir hagsmunir ráði för.

mbl.is