Saga Sajid Sadpara

Sajid Sadpara, sonur Muhammad Ali Sadpara.
Sajid Sadpara, sonur Muhammad Ali Sadpara. AFP

Pakistanski fjallgöngumaðurinn Sajid Ali Sadpara, sonur Muhammad Ali Sadpara, ætlar að leiða leit að föður sínum, John Snorra Sigurjónssyni og Juan Pablo Mohr sem ekkert hefur spurst til síðan þeir voru í fjallshlíðum K2 5. febrúar. Sadpara greinir frá þessu á Twitter í morgun. Sajid var í för með þremenningunum en sneri við skammt frá toppi K2 vegna veikinda. Félagar hans eru taldir af. 

Hann segir að leit hefjist um leið og hægt er og að hann ásamt fjölskyldunni muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að endurheimta þremenningana og veita þeim viðeigandi útför í anda trúar hvers og eins.

Sajid segir að þar sem flest slys á K2 megi rekja til lína hafi hann ákveðið að hefja hreinsunarátak á K2 þar sem gamlar línur verði fjarlægðar og annað rusl á fjallinu. „Ég tel að við getum aðstoðað móður náttúru og fjallgöngumönnum framtíðarinnar með þessum hætti.“

John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali …
John Snorri ásamt feðgunum Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali í 2. búðum K2. Ljósmynd/Facebook

Sajid Sadpara lýsir á Twitter hvernig honum hefur liðið undanfarnar vikur og að hann ætli ekki að minnast þessa tíma með örvæntingu og ótta. Hann sé á batavegi andlega og á sama tíma reyni hann að styðja við bata fjölskyldunnar. „Fjöll valdi sársauka líkt og allir fallegir hlutir,“ segir hann meðal annars á Twitter.

Yngstur til að toppa K2

Sumarið 2019 varð Sajid Sadpara yngstur allra til að ná á tind K2 en í ár dreymdi hann um að verða yngstur allra til að standa á tindinum að vetri til. Hann er 22 ára gamall og í stað þess að standa á tindinum lifði hann af áfall á fjallinu þar sem ferðafélagar hans létust allir. Þar á meðal faðir hans og fyrirmynd.

Leiðin á K2.
Leiðin á K2. Twitter síða Sajid Ali Sadpara

Í grein á vefnum Explorer er fjallað um líðan hans eftir heimkomuna. Að þurfa á sama tíma að standa frammi fyrir áfalli og sorg og athygli heimsins. Fjölmiðlar hafa herjað á hann með spurningum eins og hver voru síðustu orðin sem fóru þeirra á milli þegar Sajid sneri við þegar hinir lögðu á ísvegginn ógurlega (Bottleneck) á Abruzzi Spur leiðinni? 

BBC hafi meðal annars haldið því fram að Ali hafi krafist þess að sonur hans héldi áfram hvað sem það kostaði. Þrátt fyrir að hann ætti í vandræðum með súrefnisgrímuna. Þetta er þvert á það sem rétt er því Ali sendi son sinn til baka.

Viðtalið á Explorer vefnum er tekið með aðstoð náinna vina Alid Sadpara, Rao og Moirah Ahmad, sem túlkuðu allar spurningarnar fyrir Sajid og þýddu svör hans. Rao og Moirah Ahmad voru talsmenn feðganna á meðan leiðangrinum á K2 stóð.

Vissu ekki af áformum Nepalanna

15. janúar: Þeir John Snorri og Ali voru í búðum 2 og ætluðu sér að fara í búðir 3 eftir að hafa dvalið í búðum 2 í tvo daga. En slæm veðurspá varð til þess að þeir hættu við en sendu Sajid í búðir 3 með búnað. 

Þegar Sajid kom í búðir 3, sem voru í 7 þúsund metra hæð, hitti hann Sergi Mingote og JP Mohr. Þar spurði Mingote hvort Sajid og félagar hans ætluðu ekki að fara á tindinn með nepalska hópnum. Þeir myndu leggja af stað daginn eftir. Á þessum tíma vissu hvorki John Snorri né Ali um áform Nepalana og það var ekki fyrr en Sajid kom með þessar fréttir í búðir 2 sem þeir fréttu af áformum þeirra um að reyna við tindinn á þessum degi. Á þessum tíma voru þeir allt of langt frá tindinum til þess að taka þátt í uppgöngunni. 

Þennan saman dag skrifar Mingnote að þeir væru í búðum 3 (japönskum) og fyrir ofan hann væru tvö öflug teymi (leiðangur Purja og Mingma G). Mingote segir að veðurspáin sé góð og mögulega muni þeir reyna við tindinn daginn eftir. Hann óskaði teymum Purja og Mingma G alls hins besta en þetta eru hinstu skrif Mingote sem fórst daginn eftir á K2. Nepalarnir komust aftur á móti á tindinn og urðu þar fyrstir til þess að standa á toppi K2 að vetri til. 

4.-5. febrúar: Tæplega 40 manns reyndu að komast á tind K2 í byrjun febrúar og horfðu allir með vonaraugum á 5. febrúar þar sem veðurglugginn virtist hagstæður þann dag. Um 20 manns náðu í búðir 3 á milli 15 og 20 4. febrúar (hér er miðað við staðartíma). 

Colin O’Brady var sá fyrsti og síðan sjerpar sem báru tjald hans og búnað. Juan Pablo Mohr kom næstur en hann bar sjálfur tveggja manna tjald fyrir hann og Tamara Lunger. Ali bar tjaldið sem hann ætlaði að deila með John Snorra og Sajid. Einn sjerpanna var síðan með auka tjald.

Deildu tjaldi með þremur öðrum 

John Snorri og feðgarnir, Ali og Sajid, enduðu því með að deila tjaldinu með þremur öðrum sem þýddi að það var ekki hægt að leggjast niður, skipta um sokka, borða eða bræða snjó. Það sem skipti mestu – þeir gátu ekki hvílt sig áður en lagt var upp í síðasta áfangann. Vegna þessa gekk ferðin hægar en til stóð.

John Snorri á K2 í fyrra.
John Snorri á K2 í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

John Snorri, sem var elstur og fór hægast þeirra þriggja, lagði af stað klukkan 23:30, Ali, sem alltaf var fyrstur, lagði af stað klukkan 2 um nóttina. Báðir notuðu súrefni og voru með tvær súrefnisflöskur aukalega. Sajid lagði af stað um miðnætti, tveimur tímum á undan föður sínum. Hann var án súrefnis því hann vildi vera fyrsti Pakistaninn án súrefnis á K2 og sá yngsti sem færi á K2 að vetri til. Sajid er fimm árum yngri en Gelje Sherpa sem var yngstur í leiðangri Nepalanna. Sajid var aftur á móti með eina súrefnisflösku á sér til öryggis auk þess sem hann bar eina fyrir John Snorra.

Jökulsprungan illfæra

Sajid mætti Slóvenanum Tomaz Rotar á leiðinni sem sneri við eftir að hafa staðið frammi fyrir breiðri jökulsprungu sem hann taldi að ekki væri hægt að komast yfir. Sprungan var í 7.800 metra hæð.

Ali náði Sajid og þeir sáu John Snorra og Mohr saman við sprunguna. Saman stukku þeir yfir. Í viðtalinu segir Sajid að hann sé sannfærður um að það hafi ekki verið nein lína þarna og að stökkið hafi verið ógnvænlegt. 

Blaðamaðurinn segir að þessi jökulsprunga sé það sem er mest ruglandi við söguna. Sajid segir að þeir þrír hafi vitað um sprunguna þar sem Nepalarnir hafi látið þá vita af henni þegar þeir sneru til baka eftir að hafa náð á tindinn. Hinsvegar hefur Mingma G sagt að eftir að þeim mistókst að komast yfir þessa hindrun á Abruzzi leiðinni hafi hann og þeir sem voru með honum í för snúið við, nánast alla leið í búðir 3, þar sem þeir fundu nýja leið. Þar fylgdu þeir að mestu Cesen leiðinni. Þar hafi þeir komist framhjá sprunginni.

Bottleneck er á Abruzzi Spur leiðinni á tind K2. Ísveggurinn …
Bottleneck er á Abruzzi Spur leiðinni á tind K2. Ísveggurinn er 400 metrum fyrir neðan tindinn en fjallgöngufólk þarf að skáskera um 100 metra í gríðarlegum bratta til þess að komast yfir ísvegginn sem er í 8.200 metra hæð. Hallinn er um 50-60 gráður og þetta er hættulegasti hluti leiðarinnar. Flestir þeirra sem hafa farist á K2 hafa látist í og við Bottleneck. Ljósmynd/Wikipedia.org/Rolf Zemp

Mingma G segir að rétt eftir búðir 3 hafi ekki verið nein lína en 250-300 metrum fyrir ofan búðirnar hafi verið tilbúin lína. Sú lína náði allt á tindinn. Hann hefur einnig sagt að það hafi verið lína yfir jökulsprunguna. 

Í greininni á Explorer er því velt upp að John Snorri, feðgarnir og JP Mohr hafi jafnvel farið aðra leið og þannig farið yfir sprunguna á öðrum stað en þar sem línurnar voru? Ef svo er þá komust þeir fljótlega inn á rétta leið því það voru línur á Bottleneck að sögn Sajid.

Að sögn Sajid fékk hann skelfilegan höfuðverk eftir því sem þeir fóru hærra. Þess vegna sagði Ali honum að nota súrefni áður en þeir legðu af stað á  Bottleneck. Þeir voru í 8.200 metra hæð og klukkan var 10 að morgni. „Sólin skein, allir klifu vel og leið vel,“ segir Sajid.

Fann verulega fyrir háfjallaveiki


En þegar Sajid reyndi að kveikja á súrefninu bilaði stillingin þannig að súrefnið lak út. Ali lét hann fá talstöð og sagði Sajid að snúa við og bíða þeirra í búðum 3. Á þessum tíma er Sajid farinn að finna verulega fyrir háfjallaveiki og því muni hann ekki nákvæmlega hvað gerðist. Hann segist muna eftir því að á hádegi hafi hann litið aftur og séð föður sinn og hina á toppi Bottleneck þar sem þeir voru að byrja að skáskera erfiðan kafla í veggnum. „En ég er ekki viss lengur hvað var rauðverulegt eða hvort mig dreymdi þetta,“ segir hann. 

„Ég datt næstum því“

Einhvern veginn tókst honum að komast yfir jökulsprunguna. „Ég datt næstum því,“ segir Sajid. „Ég stökk og aðeins annar fóturinn náði yfir á hina hliðina.“ Honum tókst einhvern veginn að komast aftur í búðir 3 og var það á milli klukkan 16 og 17. „Ég veit ekki hvers vegna það tók mig svo langan tíma að komast þangað,“ segir Sajid í viðtalinu en þegar hann var kominn í búðirnar lagaði hann te og hafði samband við grunnbúðir.

Um klukkan 19 versnaði veðrið og um klukkan 23 fór Sajid út og leitaði með ljósi að þremenningunum án árangurs. Morguninn eftir tókst þeim í grunnbúðum að sannfæra Sajid um að snúa við og koma í grunnbúðir. Annað væri óðs manns æði.  „Ég held að þeir hafi ekki veikst. Þeim leið vel,“ segir Sajid. „Það hlýtur að hafa verið einhverskonar slys.“

Það tekur um fimm tíma að ganga frá upphafspunkti Bottleneck á tindinn. Ef allt hefur gengið vel hafa þeir verið á tindinum um klukkan 15. Sajid, eiginkona John Snorra og fleiri vilja meina að þeir hafi náð á tindinn en ekki er hægt að segja það með fullri vissu því engin skilaboð bárust frá þeim líkt og til stóð. 

Í hlíðum K2. Muhammad Ali Sa­dp­ara og John Snorri Sigurjónsson.
Í hlíðum K2. Muhammad Ali Sa­dp­ara og John Snorri Sigurjónsson. Facebook-síða John Snorra

Þegar leit hófst að þremenningunum og gögn úr gervihnattasímum voru skoðuð sést að reynt var að hringja úr Thuraya síma Johns Snorra klukkan 19:17 þennan sama dag í sömu hæð og búðir 3 eru. Ekki þar sem tjöldin voru heldur nær Cesen leiðinni. Til öryggis var ákveðið að fljúga þyrlunum á þessum svæði og leita en án árangurs.

Í greininni á vef Explorer, sem er rituð af Angelu Benavides, kemur fram að ekki sé hægt að vita hvort þetta var raunverulegt símtal eða kerfisvilla. Ef síminn hringdi þá er heldur ekki vitað hvort hann hafi hringt úr vasa eða að John Snorri hafi raunverulega reynt að hringja í eitthvað númer. 

Fjöl­skylda og vin­ir fjall­göngu­manns­ins Johns Snorra Sig­ur­jóns­son­ar ætla að halda bæna­stund fyr­ir hann og fé­laga hans Muhammad Ali Sa­dp­ara og Juan Pablo Mohr við Víf­ilsstaðavatn á sunnu­dags­kvöld. 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert