Úr 13.800 í 6.000 skammta

Frá bólusetningu framlínustarfsfólks gegn Covid-19.
Frá bólusetningu framlínustarfsfólks gegn Covid-19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

6.000 skammtar af bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 eru komnir í dreifingu hér á landi, ekki 13.800 eins og heilbrigðisráðuneytið gerði ráð fyrir í lok janúarmánaðar. Miðað við fréttir frá Noregi áttu skammtarnir upphaflega að vera 75.000 talsins en framleiðsluvandræði settu strik í reikninginn.

Samkvæmt svari embættis landlæknis við fyrirspurn mbl.is eru 27.000 skammtar af bóluefni Pfizer/BioNTech komnir í dreifingu, 3.900 af bóluefni Moderna og 6.000 skammtar af bóluefni AstraZeneca. Alls eru skammtarnir því 36.900 talsins.

Í næstu viku lýkur bólusetningu þeirra sem eru 80 ára og eldri á einhverjum stöðum á landinu, þá verður framlínustarfsmönnum í forgangshópum fjögur og fimm boðin bólusetning. Í vikunni þar á eftir verður bólusetningu heilbrigðisstarfsmanna og eldra fólks haldið áfram.

Bólusetning er hafin eða henni lokið hjá um 20.000 manns, samkvæmt upplýsingum á covid.is.

Uppfært 14:51: Upphaflega kom fram í fréttinni að áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir að bóluefnaskammtarnir sem ættu að koma til landsins í febrúarmánuði væru 67.000, eins og fram kom í viðtali við Svandísi Svavarsdóttur í lok janúar. Heilbrigðisráðuneytið gerði í dag athugasemdir við þann útreikning og sagði hann byggðan á misskilningi, tölur yfir afhendingu bóluefnaskammta fyrir febrúarmánuð hefðu ekki verið gefnar út. Fréttin hefur verið uppfærð í takt við þær upplýsingar.

mbl.is