Mikilvæg sérhæfð störf lögð niður þegar atvinnuleysi er mikið

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Læknafélags Íslands harmar að ekki hafi gefist tími til að gera við innlenda aðila samning um rannsóknarhluta leghálskrabbameinsskimana. Fyrir liggur að þennan hluta vinnunnar eigi að flytja til erlendrar rannsóknarstofu. Með þeirri ráðstöfun séu mikilvæg sérhæfð störf lögð niður og flutt úr landi á tímum þegar atvinnuleysi er mikið. 

Þetta kemur fram í ályktun Læknafélagsins um krabbameinsleit í leghálsi. 

„Tekið er undir álit embættis landlæknis, Félags íslenskra kvensjúkdóma- og fæðingalækna, Félags rannsóknalækna og meirihluta fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini að stefnt skuli að því allir þættir skimunarferilsins verði framkvæmdir hérlendis. Þá telur LÍ að það veki upp spurningar um atvinnu- og heilbrigðispólitíkina sem nú er rekin í landinu að hægt virðist vera að gera samninga um heilbrigðisþjónustu erlendis án útboðs á sama tíma og stjórnvöld telji sér óheimilt að ganga til samninga um sérhæfða innlenda heilbrigðisþjónustu án útboðs á Evrópska efnahagssvæðinu,“ segir í ályktuninni. 

Stjórn félagsins telur áríðandi að sú krabbameinsleit sem í boði er hérlendis samræmist bestu gagnreyndu þekkingu læknisfræðinnar og þeirri reynslu sem völ er á. 

„Flutningur á mikilvægri heilbrigðisþjónustu krefst vandaðs undirbúnings og breytingastjórnunar sem margir aðilar þurfa að koma að. LÍ leggur áherslu á mikilvægi samráðs heilbrigðisráðuneytisins við fag- og sérgreinafélög lækna þegar kemur að umfangsmiklum stefnubreytingum í heilbrigðisþjónustu eins og nú á sér stað um fyrirkomulag krabbameinsleitarinnar. Leiðarljós breytinga verður að vera skilvirkni og öryggi þjónustunnar,“ segir í ályktuninni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert