Sló afmælisgest í höfuðið með flösku

Tilkynnt var um líkamsárás í Mosfellsbæ á fjórða tímanum í nótt. Óboðnir gestir höfðu mætt í afmælisveislu og sló einn þeirra afmælisgest í höfuðið með flösku. Viðkomandi fékk skurð á enni en ekki var talin þörf á sjúkrabíl. Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn. 

Fram kemur í dagbók lögreglu að skömmu eftir klukkan 20 í gærkvöldi hafi verið tilkynnt umferðaróhapp miðsvæðis í Reykjavík. Tjónvaldur hafði ekið á aðra bifreið og rætt við tjónþola í kjölfarið, en ekið svo af vettvangi þegar tjónþoli sagðist ætla að hringja í lögreglu. Afskipti voru síðar höfð af tjónvaldi þar sem hann var handtekinn grunaður um ölvunarakstur. Var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. 

Skömmu eftir miðnætti var síðan tilkynnt um samkvæmishávaða miðsvæðis. Fjöldi ungmenna var á vettvangi og myndaðist múgæsingur við komu lögreglu. Einn maður tók að ýta við lögreglumanni og fékk hann fyrirmæli um að hætta því. Sami maður er grunaður um tjón á lögreglubifreið á vettvangi, en lögregla sá þegar maðurinn sparkaði í lögreglubifreið og reyndi síðan að hlaupa á brott. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. 

mbl.is