Álagið var alltumlykjandi

Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Landspítalans, og Ásvaldur Kristjánsson, kvikmyndatökumaður Landspítalans, þurftu …
Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari Landspítalans, og Ásvaldur Kristjánsson, kvikmyndatökumaður Landspítalans, þurftu oft að klæðast hlífðarbúningi við vinnu sína nú í faraldrinum. Þorkell skellti í eina sjálfu í spegli til að sýna aðstæður. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

„Ég áttaði mig strax á því að þarna var stór atburður á ferðinni og að skrásetja þyrfti hann í myndum. Á sama tíma var ljóst að ekki væri hægt að hleypa fjölmiðlum eða neinum utanaðkomandi inn á spítalann og var það því á mínum herðum, og kvikmyndatökumanns spítalans, að skrásetja í myndum ástandið,“ segir Þorkell Þorkelsson ljósmyndari Landspítalans.

Hann hefur staðið í ströngu við að skrásetja í myndum vinnu starfsfólks spítalans á Covid-tímum. 

Friðhelgi sjúklings

„Starfið breyttist eiginlega á einni nóttu. Ég var ekki mikið að mynda Covid-veikt fólk þótt ég sæi það allt í kringum mig. Við vorum að skrásetja starfið en hlutverk spítalans er auðvitað að vernda sjúklinga, þannig að ég var ekki vaða ofan í fólk með myndavélina þegar það var á viðkvæmasta tímabili í lífi sínu. Ég var að reyna að ná því sem var að gerast án þess að rjúfa þau helgu vé sem friðhelgi sjúklingsins er. Þetta var línudans; að mynda nóg án þess að vera byrði á starfsfólkinu,“ segir Þorkell og segist varla hafa tekið sér frí í ár.

„Þetta hefur reynt talsvert á, það er aldrei alveg hlé. En ég er alls ekki að kvarta!“

Alveg hættur að sjá

Þorkell þurfti gjarnan að klæðast fullum hlífðarbúningi og segir oft hafa verið erfitt að athafna sig við myndatökur.

„Svo þurfti maður að setja myndavélina í plastpoka og þar af leiðandi sá maður ekki vel í gegnum linsuna. Svo ertu með hlífðargleraugu sem hjálpa ekki og þar að auki grímu sem veldur því að gleraugun móðast. Þarna er maður alveg hættur að sjá. Ég þurfti bara svolítið mikið að giska og reiða mig á reynsluna mína sem blaðaljósmyndari,“ segir Þorkell og bætir við að starfsfólkið hafi staðið sig frábærlega.

Þorkell vann til verðlauna fyrir bestu mynd ársins í árlegri …
Þorkell vann til verðlauna fyrir bestu mynd ársins í árlegri keppni blaðaljósmyndara. Vinningsmyndin er tekin á kvöldvakt á Landspítalanum. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

„Það sýndi allt það besta sem í því bjó; mjög mikið æðruleysi og ábyrgð og um leið hlýju í garð sjúklinga. Auðvitað var það undir miklu álagi. Það sem vakti athygli mína og aðdáun var það að það voru allir samtaka í þessu; smiðir, þriffólk og heilbrigðisstarfsfólk. Það var ótrúlegt að upplifa þessa samheldni á svona stórum vinnustað, en þarna vinna um sex þúsund manns. Það unnu allir saman eins og einn maður.“

Spítalinn sefur aldrei

Nú stendur yfir sýning á bestu ljósmyndum íslenskra blaðaljósmyndara í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þorkell vann þar til verðlauna fyrir seríu ársins og átti auk þess mynd ársins. Myndirnar voru teknar á kvöldvakt á Landspítalanum.

„Það var gaman að rifja upp gamla takta,“ segir Þorkell, en hann var blaðaljósmyndari Morgunblaðsins í áraraðir.

„Myndirnar voru teknar á kvöld- og næturvakt og vildi ég með þessari seríu sýna að spítalinn sefur aldrei. Það er stöðugt álag og það er alltumlykjandi. Ég vildi sýna hvað fólk legði mikið á sig til að koma þjóðinni í gegnum þessar hörmungar með eins litlum skakkaföllum og hægt er.“

Nánar er rætt við Þorkel í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert