Flókin mál kalli á auknar heimildir

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Skjáskot/RÚV

Aukin skipulögð brotastarfsemi birtist lögreglunni helst í fjölgun fíkniefnatengdra mála og fjársvikamála, auk þess sem algengara er að þessir glæpir séu stundaðir undir yfirskyni hefðbundinna fyrirtækja. Þetta sagði Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, í Silfrinu á RÚV í morgun.

Lögreglan telur að 15 skipulagðir glæpahópar séu í landinu, en nýlega greindi dómsmálaráðherra frá því að 350 milljónum króna yrði varið í að skera upp herör gegn þessum hópum.

Halla segir brotin verða sífellt betur skipulögð og að hver þátttakandi sé með lítið og afmarkað hlutverk, rétt eins og hjá hefðbundnum fyrirtækjum. Þá teygi þau sig gjarnan milli landshluta og yfir landamæri. Fyrir vikið verði rannsóknir erfiðari og tímafrekari.

Fanney Birna Jónsdóttir þáttarstjórnandi spurði Höllu þá hvort lögreglan teldi sig þurfa frekari valdheimildir til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi. Halla telur svo vera. Nefndi hún sem dæmi heimildir til að halda fólki án gæsluvarðhalds. Lögum samkvæmt má lögregla aðeins halda mönnum í 24 tíma án þess að óska eftir gæsluvarðhaldi en í sumum löndum er miðað við lengri tíma. Gæta þurfi jafnvægis milli heimilda lögreglu og mannréttinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert