Besta útsýnið yfir mögulegt gossvæði

Á iceland360vr.com má skoða mögulegt gossvæði í miklum gæðum.
Á iceland360vr.com má skoða mögulegt gossvæði í miklum gæðum. Skjáskot/Iceland 360 VR

Snorri Þór Tryggvason arkitekt og Sigríður Kristjánsdóttir jarðeðlisfræðingur héldu upp að Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga á dögunum til að taka 360° loftmynd af svæðinu.

Afraksturinn er yfirsýn í miklum gæðum af svæðinu í kringum Fagradalsfjall, allt frá Þorbirni við Grindavík og norður til Keilis og að Trölladyngju. Hér á www.iceland360vr.com má skoða loftmyndina úr öllum áttum og örnefnin eru merkt inn á.

Útsýnið hlýtur að vera með því besta sem fæst af svæði sem að hluta til verður undirlagt hraunflæði ef til goss kemur í kjölfar mikillar jarðskjálftavirkni sem hefur verið á svæðinu undanfarið. Stórir skjálftar hafa fundist mjög víða, sem eiga upptök sín á milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Vísindamenn telja að kvikugangur hafi myndast undir helsta jarðskjálftasvæðinu, sem getur leitt til eldgoss á svæðinu þegar fram líða stundir. Enn er þó óljóst að kvika sé yfirleitt fyrir hendi á staðnum. Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingur sagði við mbl.is fyrr í kvöld að vel gæti verið að hrinan gangi yfir án þess að til eldvirkni komi.

Gosið yrði á milli norðurenda Fagradalsfjalls og Keilis, að mati …
Gosið yrði á milli norðurenda Fagradalsfjalls og Keilis, að mati vísindamanna. Kanna má svæðið inni á 360° loftmyndinni. Kort/mbl.is
mbl.is