Innanlandssmitið reyndist gamalt

Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Innanlandssmit sem greindist utan sóttkvíar í gær reyndist vera gamalt smit og er viðkomandi með mótefni. „Bestu fréttir dagsins,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarnadeildar. 

Viðkomandi fór í tvöfalda skimun á landamærum með fimm daga sóttkví á milli líkt og reglur gera ráð fyrir þegar hann kom til landsins um miðjan febrúarmánuð. Bæði sýnin voru neikvæð. 

Mótefnamælingar var beðið í morgun og kom hún jákvæð út að því er Hjördís segir í samtali við mbl.is. 

Virkt smit utan sóttkvíar innanlands hefur því ekki greinst síðan 1. febrúar. 

mbl.is