„Mjög lærdómsríkt ár“

Gylfi Þór Þorsteinsson í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg.
Gylfi Þór Þorsteinsson í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg. mbl.is/Ásdís

„Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt ár,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhússins á Rauðarárstíg. Eitt ár er síðan húsið var tilbúið til notkunar og fyrsti gesturinn kom þangað til dvalar 7. mars 2020. Þar hafa alls 1.100 manns dvalið vegna Covid-19-faraldursins.

Sex farsóttarhús hafa verið opnuð í faraldrinum en í dag er húsið við Rauðarárstíg í Reykjavík það eina sem er opið.

Þegar mest lét voru 110 manns þar í einu en núna eru þar fimm manns, þar af fjórir Covid-sýktir. Þeir sem dvelja núna í húsinu eru búsettir hér á landi og greindust með smit á landamærunum.

Enginn starfsmaður eða sjálfboðaliði veikst við vinnu í húsinu

Gylfi segist hafa staðið frammi fyrir alls konar verkefnum síðasta árið sem hann hafi ekki áður þurft að glíma við. „Einnig hefur maður séð hvað er til margt gott og hæfileikaríkt fólk sem var tilbúið að vinna í aðstæðum þar sem það vissi ekki hvort það myndi veikjast eða ekki,“ segir Gylfi sem hrósar sjálfboðaliðum Rauða krossins sem hafa staðið vaktina. Enginn sjálfboðaliði eða starfsmaður hefur veikst eða þurft að fara í sóttkví vegna vinnu í farsóttarhúsinu.

„Við höfum á þessu ári verið með fólk sem hefur misst maka vegna veirunnar, misst ættingja vegna slysa og þurft að koma til landsins, fólk sem flýr stríðsatök í heimalandi sínu, flóttamenn, ferðamenn og hin almenna Íslending. Við höfum verið með farsóttarhús, fyrir jaðarsetta einstaklinga, fólkið okkar sem er heimilislaust eða í virkri neyslu. Allir hafa fengið sömu þjónustu, hvort sem þeir voru lagðir inn af rakningarteyminu, Covid-deildinni, félagsmálayfirvöldum eða komu í fylgd lögreglu,“ segir Gylfi.

Gylfi Þór Þorsteinsson.
Gylfi Þór Þorsteinsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Hann segir að vissulega sé rólegt í húsinu núna og að farsóttarhúsið sé vinnustaður sem vonast sé til að hægt sé að leggja niður. „Það þýðir að veiran er horfin úr samfélaginu en á meðan hún er hér enn höfum við opið. Við þurfum að vera tilbúin þegar það er rólegt og líka þegar allt er á fullu.“

Gylfi segist ekki sjá fram á að loka húsinu á næstunni en hann býr þó ekki lengur þar, líkt og hann gerði fyrstu þrjá mánuðina eftir að það opnaði í fyrra. Núna fer hann, sem betur fer að eigin sögn, heim til sín á kvöldin að loknum vinnudegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert