Mögulega meiri ástæða til að gera ráð fyrir gosi

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði.
Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði, segir að ef til vill þurfi að gera meira ráð fyrir að eldgos verði á Reykjanesskaga. Kvikugangur sem treður sér inn í jarðskorpuna geti verið ástæða þeirrar langvarandi jarðskjálftahrinu sem fundist hefur á svæðinu undanfarið. Hann vill þó að varlega sé farið í það að spá að eldgos verði.

„Allt tal um gosóróa er á villigötum og við skulum forðast þá orðnotkun,“ segir Páll við mbl.is.

Hann segir að ný gögn sýni fram á að mögulega geti það verið svokallaður kvikugangur sem brýst inn í neðri lög jarðskorpunnar. Ef svo er gætu verið meiri líkur á eldgosi.

„Nýjustu gögnin komu í morgun, þá flaug gervitungl yfir, og það fékkst ratsjármynd frá því og það gefur vísbendingu um að til að skýra aðlögunina þarna þurfi að bæta við rúmmáli í jarðskorpuna og það getur verið með ýmsu móti. Einn möguleikinn er að það sé þarna kvikugangur sem er að troða sér þarna inn í neðri hluta jarðskorpunnar.“

Heppileg staðsetning ef af gosi verður

Páll segir að kvikugangurinn gæti hafa byrjað með stóra skjálftanum á miðvikudaginn. Stöðug skjálftavirkni hlytist síðan af því að kvika flæddi stöðugt inn kvkuganginn, ef rétt reynist það er. Frekari rannsóknir munu leiða það í ljós, segir Páll.

„Það er auðvitað ýmislegt sem getur útskýrt þessa skjálftavirkni en menn virðast ekki vera komnir með svona sennilegri skýringu, getum við sagt. En þetta breytist auðvitað hratt og það gætu verið allt aðrar hugmyndir á morgun.“

Páll segir að ef af gosi verður gæti það orðið á miðjum Reykjanesskaganum. Það telur hann heppilegt ef á að gjósa á annað borð.

„Líklegasti staðurinn fyrir þetta er á miðjum skaganum á bak við Keili ef við horfum á þetta frá höfuðborgarsvæðinu og þetta yrði þá einn heppilegasti staðurinn fyrir gos ef það á að gjósa á annað borð.“

Já, þar sem enginn er?

„Já, þarna er nánast ekkert hægt að eyðileggja, alla vega í bráð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert