Mótefnamælingar beðið vegna smitsins

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Eitt smit greindist utan sóttkvíar síðasta sólarhringinn en slíkt smit hefur ekki komið upp innlands í mánuð eða síðan 1. febrúar. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við mbl.is að verið sé að skoða smitið en um sé að ræða aðila sem kom til landsins um miðjan febrúar en greindist ekki í landamæraskimunum.

„Þetta er aðili sem kom hingað til lands um miðjan mánuðinn og fór í tvö próf á landamærum og bæði neikvæð og er svo núna að fara utan og þurfti vottorð og þá kemur þetta upp. Við erum bara að bíða eftir mótefnamælingu til að sjá hvort þetta geti verið nýtt eða gamalt þar sem áframhaldið ræðst af niðurstöðunni af því,“ sagði Þórólfur.

Smitrakning ekki enn farin í gang

Aðspurður segir Þórólfur að smitrakning sé ekki enn farin í gang. „Hún fer væntanlega ekki í gang fyrr en við sjáum betur hvað kemur út úr þessu prófi þannig að þá verður hægt að fókusera meira á hvaða tímabil þarf að skoða og svo framvegis, þannig að menn eru svona aðeins að bíða með það. 

Eitt smit greindist utan sóttkvíar síðastliðinn sólarhring.
Eitt smit greindist utan sóttkvíar síðastliðinn sólarhring. Eggert Jóhannesson

Ef hins vegar kemur í ljós að þetta er ný sýking, smit sem líklega er hér innan lands, þá segir það okkur það að veiran er einhvers staðar úti í samfélaginu og getur þannig blossað upp sem þýðir það að við þurfum öll að passa okkur áfram,“ bætti Þórólfur við.

Þórólfur ítrekaði þá mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarna. „Það þurfa allir að passa sig á þessum einstaklingsbundnu sýkingavörnum ef við ætlum ekki að fara að fá einhverja aðra bylgju núna í kjölfarið, það vonandi verður ekkert þannig í gangi.“ 

Vonandi ekki frekari samkomutakmarkanir

Þórólfur vonast til að ekki þurfi að grípa til frekari samkomutakmarkana að nýju.

„Maður er svona að bíða með það en það er ljóst að ef við förum að fá einhverja fjölgun og greinilegt að þetta sé einhvers staðar víða þá þurfum við bara að skoða þá reynslu sem við höfum og þær aðgerðir sem við höfum gripið til. En vonandi verður ekkert úr slíku,“ sagði Þórólfur.

   

mbl.is

Bloggað um fréttina