Sterkur jarðskjálfti fannst víða

Horft í átt að Keili af höfuðborgarsvæðinu.
Horft í átt að Keili af höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hari

Sterkur jarðskjálfti reið yfir suðvesturhorn landsins nú um klukkan 01.31.

Skjálftinn mældist 4,9 að stærð, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu.

Varð hans vart mjög víða, á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu, austur í Landeyjar og upp í Borgarfjörð.

Fannst á Arnarstapa og í Búðardal

Lesendur mbl.is hafa að auki sagst hafa fundið skjálftann á Arnarstapa, í Búðardal, á Akranesi og í Þykkvabæ, svo dæmi séu nefnd.

Skjálftinn er sá stærsti sem mælst hefur frá því á laugardagsmorgun. Þá mældist skjálfti af stærðinni 5,2.

Enn er fyrsti skjálftinn í hrinunni sá stærsti, sem reið yfir á miðvikudagsmorgun og mældist 5,7.

Á sömu slóðum og aðrir skjálftar

Skjálftinn átti upptök sín um 2,5 kílómetra vestsuðvestur af Keili, eða á sömu slóðum og aðrir þeir skjálftar sem urðu á sunnudag. Varð hann á 3,4 kílómetra dýpi.

Fyrr í nótt, eða upp úr miðnætti, urðu skjálftar af stærðinni 3,2 og 3,5. Þá varð skjálfti 3,6 að stærð úti í hafi undan Reykjanestá.

mbl.is