„Það geta ekki allir verið í forgangi“

Ekki fengist heimild til að bólusetja framlínustarfsfólk í flugi.
Ekki fengist heimild til að bólusetja framlínustarfsfólk í flugi. AFP

Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í dag hefur Icelandair fengið synjun hjá embætti landlæknis og heilbrigðisráðuneytinu við ósk um bólusetningu framlínustarfsfólks í flugi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bendir á í samtali við mbl.is að það séu margir hópar sem telja sig þurfa að vera í forgangi og margir hópar sem fara utan og eru með sömu rök og flugliðar. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Ásdís

„Ef við förum að taka allt þetta fólk fram fyrir þá eru einhverjir aðrir sem fara neðar og við erum að reyna núna að klára þessa elstu hópa, fólk sem að við vitum að fer hvað verst út úr sýkingunni, þannig það geta ekki allir verið í forgangi. Svo við þurfum að reyna að forgangsraða þessu og ég held að við förum ekki að breyta neinu á þessu stigi,“ segir Þórólfur.

Ekki komið upp nein smit í þessum hópi

Að sögn Þórólfs er hér um að ræða fólk sem hafi fengið ákveðnar leiðbeiningar og þar að auki hafi ekki nein smit komið upp hjá þessum hópi. 

„Þetta er líka fólk sem hefur viljað vera undanþegið skimunum á landamærum þannig að það er augljóst að smithættan er lítil en ég skil alveg vel að fólk vilji vera bólusett en við getum ekki bólusett alla og haft alla í forgangi,“ segir Þórólfur.

Aðspurður segir Þórólfur að sá hópur starfsfólks sem hefur verið bólusettur í flugstöð Leifs Eiríkssonar séu þeir sem eru í nánu samneyti við alla farþega sem koma til landsins. „Tollverðir og lögreglan á vellinum sem þurfa að skoða gögn og fara ofan í hvern einasta einstakling sem kemur og það eru þeir hópar sem hafa verið bólusettir.“

mbl.is