Uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar 7.100 milljarðar

Uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar almannatrygginga námu um 2.700 milljörðum króna í lok árs 2018, en það samsvarar 95% af vergri landsframleiðslu. Lífeyrisskuldbindingar lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði námu tæpum 3.300 milljörðum króna og opinberra starfsmanna um 1.100 milljörðum króna.

Samtals námu áætlaðar heildarlífeyrisskuldbindingar almannatrygginga, opinberra starfsmanna og lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði um 7.100 milljörðum króna í lok árs 2018. Er það um 250% af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í útreikningum Hagstofu Íslands.

Við útreikning á lífeyrisskuldbindingum almannatrygginga er stuðst við svokallaða „uppsöfnun-að-dagsetningu“-aðferð (e. accrued-to-date (ADL)) en inntak hennar eru uppsafnaðar skuldbindingar gagnvart þeim sem þegar hafa unnið sér inn réttindi í lok viðmiðunarársins. Þessi aðferð tekur því ekki mið af mögulegum réttindum út starfsævi þeirra sem eru þegar í kerfinu né nýrra réttindahafa, heldur einungis punktstöðu réttindauppsöfnunar við lok viðmiðunarársins.

Virði lífeyrisskuldbindinga er mjög háð raunvöxtum og samkvæmt samræmdri aðferðafræði er raunvaxtarprósenta til núvirðingar lífeyrisskuldbindinga almannatrygginga 3%. Á árinu 2018 er mat á áætluðum lífeyrisskuldbindingum almannatrygginga miðað við 3% raunvexti um 2.700 milljarðar króna. Við 1% lækkun vaxtastigsins hækka áætlaðar lífeyrisskuldbindingar í 3.250 milljarða króna og við sams konar hækkun myndu lífeyrisskuldbindingar standa í 2.283 milljörðum króna.

Alþjóðlegur samanburður á lífeyriskerfum ríkja er erfiður sökum þess hversu mismunandi kerfin eru og hvernig þau eru fjármögnuð. Á myndinni hér að neðan er það einungis Holland sem er með hærra hlutfall af fjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum en Ísland.

Graf/Hagstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert