17 ára ökumaður undir áhrifum fíkniefna

mbl.is/Eggert

Lögregla stöðvaði för bifreiðar í Árbænum í nótt en ökumaðurinn, sem er aðeins 17 ára, er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og var ekki með ökuskírteini sitt meðferðis. Málið afgreitt með tilkynningu til móður og barnaverndar.

Um svipað leyti stöðvaði lögreglan annan ökumann sem einnig er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna í Austurbænum (hverfi 105) en um klukkan 20 var enn einn ökumaðurinn stöðvaður í hverfi 105. Sá var með fíkniefni á sér og grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Seint í gærkvöldi var síðan ökumaður sem er grunaður um ölvun við akstur stöðvaður í Breiðholti (hverfi 111). 

Var á 79 km hraða þar sem heimilt er að aka á 30

Lögreglan var með umferðareftirlit í hverfi 109 frá klukkan 16:50 til 21 þar sem mældur var hraði bifreiða. Afskipti voru höfð af fjórum ökumönnum. Einn var á 59 km hraða þar sem aka má á 30. Annar var á 79 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. Tveir voru á 80 og 83 km hraða þar sem heimilt er að aka á 50 km/klst.

Skráningarmerki voru klippt af um það bil 20 bifreiðum í Breiðholti og Kópavogi í gærkvöldi. Bifreiðarnar höfðu ekki verið færðar til skoðunar á réttum tíma, voru ótryggðar eða hvort tveggja.

mbl.is