Í ævintýraleit við rætur Keilis

Jacob Smith og Christina Zebelyte voru á ferð við Keili …
Jacob Smith og Christina Zebelyte voru á ferð við Keili í dag í leit að ævintýrum þegar blaðamaður rakst á þau. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jacob Smith og Christina Zebelyte voru í leit að ævintýri við rætur Keilis þegar blaðamaður og ljósmyndari rákust á þau í dag. Vinur þeirra er jarðvísindamaður og hafði mælt með því að þau ferðuðust um Reykjanesskagann í leit að mögnuðu sjónarspili.

„Ekki neitt ennþá allavega,“ sögðu þau í kór þegar blaðamaður spurði þau hvort þau hefðu séð eitthvað merkilegt. 

„Við ákváðum bara að labba eitthvað hérna í kring til þess að sjá hvort eitthvað merkilegt væri á seyði,“ sagði Jacob Smith. 

Óvænt svaðilför

Jacob er frá Skotlandi en Christina frá Litháen. Þau höfðu aldrei áður fundið jarðskjálfta nema á Íslandi og fannst mögnuð upplifun að finna fyrir hvikulli náttúrunni. Skjálftinn seinasta miðvikudag sagði Jacob að hefði verið sá stærsti sem hann hefði fundið á sínum 10 árum á Íslandi.

„Okkur er sagt að það sé mögulega hraun hérna undir jarðveginum sem gæti komið upp á yfirborðið,“ segir Christina. 

„Já, ég var svona að vona að við myndum sjá eitthvað hérna í dag,“ sagði Jacob þá.

En eruð þið ekkert hrædd?

„Nei, það sem ég hef heyrt er að kvikan renni hérna undir jarðskorpunni og það verði ekkert sprengigos eða eitthvað slíkt.“

Jacob og Christina fylgdu blaðamanni og ljósmyndara eftir spölkorn í átt að Keili, en þau höfðu lagt Toyota Yaris-bíl sínum skömmu eftir að komið er inn á afleggjarann í átt að Keili.

Köld og blaut voru þau fegin að fá far með blaðamönnum (á betri bíl) í leit að sérfræðingum Veðurstofunnar, sem eru við gasmælingar í grennd við Keili. Eftir að blaðamaður hafði næstum fest bílinn í drullusvaði og keyrt glannalega á eftir sérfræðingum Veðurstofunnar skildi þó leiðir og Jacob og Christina kvöddu með virktum og löbbuðu til baka í átt að Yarisnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert