Látrabjarg friðlýst

Á Látrabjargi má finna mikla líffræðilega fjölbreytni og fjölskrúðugt fuglalíf …
Á Látrabjargi má finna mikla líffræðilega fjölbreytni og fjölskrúðugt fuglalíf en markmið friðlýsingarinnar er einmitt að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Umhverfis- og auðlindaráðherra skrifaði í dag undir friðlýsingu Látrabjargs, samkvæmt tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land- og sumarhúsaeigenda á Hvallátrum við Látrabjarg, sem friðlýsingin hefur verið unnin í nánu samstarfi við.

„Látrabjarg er eitt stærsta fuglabjarg Evrópu og flokkast sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Það var árið 2004 sem Alþingi samþykkti þingsályktun um náttúruverndaráætlun 2004-2008 en svæðið heyrir undir áætlunina og þar með var samþykkt að unnið yrði að friðlýsingu svæðisins,“ segir í tilkynningunni. 

Á Látrabjargi má finna mikla líffræðilega fjölbreytni og fjölskrúðugt fuglalíf en markmið friðlýsingarinnar er einmitt að vernda sérstætt og fjölbreytt lífríki svæðisins og búsvæði fugla.

„Á svæðinu er mesta sjófuglabyggð landsins, til að mynda stærsta þekkta álkubyggð í heimi. Fjölmargar tegundir fugla verpa á svæðinu, þar á meðal tegundir sem eru á válista, svo sem lundi og álka. Við Látrabjarg er líka að finna búsetu- og menningarminjar. Þá speglast jarðsaga Vestfjarða í bjarginu,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.

Í kjölfar staðfestingar ráðherra á friðlýsingunni skrifuðu ráðherra og fulltrúar Bjargtanga undir viljayfirlýsingu um málefni friðlýsingar Látrabjargs og þróunar svæðisins til framtíðar.

„Í dag er stór dagur í náttúruvernd þegar við friðlýsum Látrabjarg, eitt stórbrotnasta fuglabjarg landsins og með þeim stærstu við Norður-Atlantshaf. Bjargið er alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð en þar er að finna eina stærstu álkubyggð í heimi og um helming íslenska stofnsins. Þá hefur orðið [fjölgun] ferðamanna út á bjargið undanfarin ár og því mjög brýnt að stýra umferð með markvissum hætti og efla umsjón með svæðinu. Von mín er sú að fuglar og menn geti notið svæðisins um ókomna tíð,“ er haft eftir Guðmundi Inga í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert