Rúmlega 800 skjálftar frá miðnætti

Jarðvísindamenn við mælingar á Reykjanesi.
Jarðvísindamenn við mælingar á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er sama staða og í gær,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Áfram hristist jörð á Reykjanesskaga en rúmlega 800 skjálftar hafa mælst þar frá miðnætti.

Rétt um klukk­an 3 í nótt mæld­ust tveir skjálft­ar yfir stærð 4. Sá fyrri var klukk­an 02:53 1,3 km suðvestur af Keili og var 4,3 að stærð. Sá seinni var í Fagra­dals­fjalli, klukk­an 03:05, 4,6 að stærð. 

Alls mældust fjórir skjálftar yfir 4 að stærð í nótt og 15 yfir 3.

Jarðvís­inda­menn telja nú meiri lík­ur á eld­gosi á Reykja­nesskaga en þeir töldu fyrr í skjálfta­hrin­unni sem hófst þar í síðustu viku. Ástæðan fyr­ir því eru gervi­hnatt­ar­mynd­ir sem vís­inda­nefnd al­manna­varna bár­ust í gær, þar sem sjá mátti mikl­ar færsl­ur á yf­ir­borði jarðar á jarðskjálfta­svæðinu.

Bryndís segir að gasmælingar verði gerðar á svæðinu í grennd við Fagradalsfjall og Keili og að enn fremur verði mælanetið sem mælir jarðhreyfingar mögulega þétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert