Sakar fjölmiðla um að hamast á Áslaugu

Hreinn Loftsson er aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.
Hreinn Loftsson er aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Hreinn Loftsson, aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, telur að dagbókarfærsla lögreglu um viðveru fjármálaráðherra í Ásmundarsal á Þorláksmessu hafi verið „mjög óvenjuleg“.

Í facebookfærslu skrifar Hreinn að tímasetning lögreglunnar á skilaboðunum um „háttvirtan ráðherra“ hafi verið í hæsta máta sérkennileg og því kallað á skýringar af hálfu lögreglunnar án frekari dráttar. Því hafi dómsmálaráðherra verið nauðsynlegt að afla upplýsinga frá lögreglunni til að geta áttað sig á málinu og svarað spurningum um það.

Áslaug Arna hringdi tvisvar í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag vegna máls Bjarna Benediktssonar.

Hreinn skrifar að það veki furðu „hvernig ákveðnir fjölmiðlar og sumir stjórnmálamenn hafa hamast á dómsmálaráðherra vegna þessa máls“. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, óskaði eftir því að Áslaug Arna kæmi fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna málsins.

Í svari við athugasemd við færsluna skrifar Hreinn: „Að sjálfsögðu er hún ekki að skipta sér af málinu (rannsókninni) þegar hún óskar skýringa á mjög óvenjulegri dagbókarfærslu lögreglunnar og hvaða reglur gildi um slíka upplýsingagjöf.“

mbl.is