Skjálfti upp á 4,2 stig

Ekkert lát er á skjálftahrinunni.
Ekkert lát er á skjálftahrinunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðskjálfti sem mældist 4,2 stig varð um klukkan 5:36 í morgun og voru upptök hans á svipuðum slóðum og skjálftarnir í nótt. Nokkrum mínútum fyrr varð skjálfti sem mældist 3,5 að stærð samkvæmt upplýsingum frá náttúruvársviði Veðurstofu Íslands. Yfir 600 skjálftar hafa verið frá því á miðnætti þegar þetta var ritað tæplega sex í morgun. 

Rétt um klukkan 3 í nótt mældust tveir skjálftar yfir stærð 4. Sá fyrri var klukkan 02:53 1,3 km SV af Keili og var 4,3 að stærð. Sá seinni var í Fagradalsfjalli, klukkan 03:05, 4,6 að stærð. Þeirra varð beggja vel vart á suðvesturhorninu og þess seinni alveg austur á Hellu og í Vestmannaeyjum.

Virkni hefur verið nokkuð kaflaskipt í nótt. Frá um kl. 10 í gærkvöld þar til rétt fram yfir miðnætti mældust nokkrir skjálftar yfir stærð 3. Svo tók virknin sig aftur upp um klukkan hálfþrjú og nú aftur á sjötta tímanum. 

Kröftug jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga þann 24. febrúar með skjálfta af stærð 5,7 og öðrum 5,0 að stærð. Síðan þá hafa fjölmargir skjálftar yfir 4 mælst á svæðinu og tveir skjálftar yfir 5. Þeir voru þann 27. febrúar (M5,2) og 1. mars (M5,1).

Svona hrinur eru ekki einsdæmi á þessu svæði t.d. mældust um fimm skjálftar 10. júní 1933 sem voru af stærð 4,9 til 5,9 við Fagradalsfjall.

Hrinan er enn í gangi en um 14 000 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá því að hrinan hófst.

Í gærkvöld, 1. mars kl. 19:53, varð jarðskjálfti af stærðinni 3,3 um 16 km NNA af Grímsey. 

Jarðvísindamenn telja nú meiri líkur á eldgosi á Reykjanesskaga en þeir töldu fyrr í skjálftahrinunni sem hófst þar í síðustu viku. Ástæðan fyrir því eru gervihnattarmyndir sem vísindanefnd almannavarna bárust í gær, þar sem sjá mátti miklar færslur á yfirborði jarðar á jarðskjálftasvæðinu. Að sögn Kristínar Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, er einfaldasta og eðlilegasta leiðin til að skýra þessar færslur sú, að gera ráð fyrir að kvikuinnskot valdi þeim. Einfaldir jarðskjálftar geta valdið minni færslum en ólíklegt að þeir séu þess megnugir að valda færslum af þessari stærðargráðu. Ein sviðsmynda vísindanefndarinnar er því að gos hefjist á svæðinu á milli norðanverðs Fagradalsfjalls og Keilis. Slíkt gos væri flæðigos án mikilla sprenginga að mati sérfræðinga og hefði í för með sér hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð.

„En það sem gæti orðið vesen ef það yrði þarna eldgos er gasmengun,“ sagði Kristín í samtali við Morgunblaðið. Páll Einarsson prófessor benti á að staðsetning hugsanlegs goss væri heppileg ef færi að gjósa á annað borð, enda ekki margt á svæðinu sem væri hægt að eyðileggja.

Enn er erfitt að fullyrða um líkur á eldgosi, að sögn Kristínar. Svipaðar jarðskjálftahrinur hafa oftar en ekki gengið yfir án þess að til eldvirkni komi. Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir að einhvern tíma komi að gosi á svæðinu, þó að það þurfi ekki að vera núna. En eldgos á Reykjanesskaga þýða ekki nein endalok að hans sögn. „Menn munu halda áfram að búa á Reykjanesskaganum,“ segir hann. Engin merki eru um að sögulega hafi stór sprengigos orðið á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert