Sterkir skjálftar í Brennisteinsfjöllum

Tíðir jarðskjálftar fundust á Reykjanesi á árunum 1925-1928.
Tíðir jarðskjálftar fundust á Reykjanesi á árunum 1925-1928. mbl.is/Sigurður Bogi

Reykjanesskaginn er þekkt jarðskjálftasvæði. Þar hafa stórir jarðskjálftar átt upptök, meðal annars í Brennisteinsfjöllum. Spurningin nú er hvort þar verði stórir jarðskjálftar í framhaldi af atburðarásinni vestar á Reykjanesskaga.

Stóri jarðskjálftinn 1929

Tíðir jarðskjálftar fundust á Reykjanesi á árunum 1925-1928. Meðal annars skemmdist Reykjanesviti í jarðskjálfta 25. október 1926 og slokknaði á vitanum og sprungur komu í vitahúsið. Sprungur mynduðust í jörð og breytingar urðu á hverum.

Stærsti jarðskjálfti sem vitað er að orðið hafi á Reykjanesskaga varð svo 23. júlí 1929. Hann var 6,3 stig og fannst víða um land. Upptök hans voru nálægt Brennisteinsfjöllum, líklega á svokölluðu Hvalhnúksmisgengi. Þessi skjálfti olli miklu tjóni í Reykjavík og víðar eins og greint var frá í Morgunblaðinu daginn eftir. „Stundarfjórðungi fyrir klukkan 6 í gær, kom hjer í Reykjavík svo harður jarðskjálftakippur, að menn muna hjer ekki annan eins. Hús hristust svo að brakaði í þeim og fjölda fólks var nóg boðið svo það þusti út á göturnar, sumpart til að bjarga sjer, ef húsin skyldu hrynja, sumpart til þess að verða sjónarvottar að atburðum þeim, er fyrir kæmi í grendinni. Talið er að kippurinn hafi staðið 35-40 sekúndur. Er það langur jarðskjálftakippur.“

Miklar skemmdir urðu á húsum. Mestar skemmdir virtust hafa orðið á þeim sem hlaðin voru úr grásteini eins og Alþingishúsinu og Landsímastöðinni. Sprungur sáust í flestum herbergjum þinghússins „og hrundi nokkuð niður af loftlistum - einkum í Neðrideild“. Brestur kom í konungsmerkið yfir innganginum og datt moli úr því á gangstéttina.

Í Landsímahúsinu sprungu veggir og reykháfur hrundi líkt og á fleiri húsum í bænum. Blaðið hafði ekki tölu á þeim reykháfum sem hrundu. Sprungur komu í veggi nokkurra steinsteyptra húsa. Munir duttu úr hillum og vörur sem var stillt upp í búðargluggum hrundu í hrúgur. Rúður í nokkrum búðargluggum sprungu. Mesta tjónið varð í glervörubúðum en þar brotnaði all mikið af vörum.

Hús sveifluðust til með braki og brestum eins og væri ofsarok en veður var hið besta, blæjalogn og sólskin. Allmikil bára kom á Tjörnina og gaus upp úr henni óþefur. Götur og gangstéttir gengu til. Sprungur komu í hafnargarðinn og hafnarbakkann í Reykjavík.

Jarðskjálftinn fannst austur að Skeiðarársandi, vestur á Snæfellsnes og norður á Borðeyri, að því er Morgunblaðið hafði frétt. Ekki fréttist af neinum slysum á fólki. Annar kippur, miklu vægari, kom klukkan rúmlega sjö og sá þriðji sem var þeirra vægastur kom klukkan átta um kvöldið.

Minni háttar tjón í skjálftanum 1968

Jarðskjálfti að stærð 6,0 varð svo 5. desember 1968. Upptök hans voru líklega á svipuðum slóðum og stóri jarðskjálftinn varð 1929. Skjálfti þessi fannst víða um land. Hann olli minni háttar tjóni í Reykjavík og gamlar sprungur opnuðust í húsum í Hafnarfirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert