Þrjú og hálft ár í rannsókn

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon.

Rannsókn héraðssaksóknara á máli Magnúsar Ólafs Garðarssonar, stofnanda og fyrrverandi stjórnanda United Silicon, er enn í gangi, en hún fór af stað í september árið 2017, eftir að stjórn félagsins sendi kæru til embættisins. Í framhaldinu tóku Arion banki og fimm lífeyrissjóðir yfir starfsemi kísilversins.

Þetta er ekki eina málið gegn Magnúsi sem hefur verið sent saksóknara eða rekið fyrir dómstólum. Í dag fer fram aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í einkamáli Arion banka á hendur Magnúsi vegna skuldar félagsins Tomahawk Development við Arion banka, en Magnús var í ábyrgð fyrir þeirri skuld.

Um er að ræða fimm milljóna tryggingabréf sem hvílir á fyrsta veðrétti fasteignar Magnúsar að Huldubraut 28 í Kópavogi. Var tryggingabréfið til ábyrgðar fyrir yfirdráttarheimild á tékkareikningi í Arion banka, en hún féll niður í september árið 2017. Félagið Tomahawk Development var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar 2019, en Magnús var eigandi 73,5% hlutar í félaginu og var jafnframt stjórnandi þess.

Til viðbótar við þessi tvö mál kærði Arion banki Magnús fyrir mögulega refsiverða háttsemi í október 2017 og þá var Magnús krafinn um hálfan milljarð í janúar 2018 af þrotabúi Sameinaðs sílikons

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að mál Magnúsar sé enn í rannsókn. Það hafi haft erlenda vinkla sem kölluðu á erlendar réttarbeiðnir og slíkt taki alltaf tíma. Samkvæmt áskorun sem birt var í Lögbirgingablaðinu árið 2019 var Magnús með skráð lögheimili í Danmörku en óþekktan dvalarstað á Spáni.

mbl.is