Andlát: Helgi V. Jónsson

Helgi Vilhelm Jónsson.
Helgi Vilhelm Jónsson.

Helgi Vilhelm Jónsson, hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi, lést 2. mars sl. á Sólteigi, Hrafnistu, 84 ára að aldri, eftir erfiða baráttu við Alzheimer-sjúkdóminn.

Helgi fæddist í Reykjavík 30. maí 1936, sonur hjónanna Jóns Sigurðar Helgasonar stórkaupmanns og Hönnu Helgason og var næstelstur fjögurra systkina. Helgi lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1955 og kandídatsprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1960. Hann öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi 1961, löggildingu endurskoðanda 1966 og málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti 1976.

Að loknu laganámi starfaði Helgi á endurskoðunarskrifstofu Kolbeins Jóhannssonar og Co. þar til hann tók við stöðu skrifstofustjóra borgarverkfræðings 1963 og var síðar borgarendurskoðandi 1966-1975. Hann var einn stofnenda Endurskoðunar hf. (KPMG ehf.) 1975 og starfaði þar við endurskoðunar- og lögmannsstörf til ársins 2001 en eftir það við einstök verkefni í félagi við dóttur sína, Hönnu Láru. Helga voru falin margvísleg trúnaðarstörf á starfsferli sínum; sat m.a. í ríkisskattanefnd 1968-1973 og 1980-1992 og stjórn SKÝRR 1967-1980. Hann var formaður kjaradeilunefndar frá 1977-1985, formaður nefndar til að endurskoða lög um Kjaradóm 1992, formaður kauplagsnefndar og formaður samninganefndar Tryggingastofnunar ríkisins árin 1983-2001. Helgi var formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1976, í stjórn LMFÍ 1977-1982, þar af formaður frá 1981 og formaður FLE 1987-1989.

Helgi var mikill íþróttamaður. Hann lék með gullaldarliði KR í knattspyrnu og í landsliði Íslands. Hann spilaði einnig körfuknattleik og handbolta í meistaraflokki.

Eftirlifandi eiginkona Helga er Ingibjörg Jóhannsdóttir, danskennari og húsfreyja. Börn þeirra eru Hanna Lára, Anna Dóra, Jón Sigurður og Halla María.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »