Eflir ekki traust á bóluefnasamstarfi

Bólusetning í Laugardalshöll í gær.
Bólusetning í Laugardalshöll í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er að minnsta kosti ekki til þess fallið að efla traust á samkomulaginu, að fara með þessum hætti framhjá bóluefnasamstarfi Evrópusambandsins og EES-landanna,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri-hreyfingarinnar græns framboðs og varaformaður velferðarnefndar Alþingis í samtali við mbl.is.

Morgunblaðið flutti fréttir í morgun af því að fjöldi ríkja sé far­inn að huga að því að semja um bólu­efni gegn Covid-19 utan bólu­efna­sam­starfs Evr­ópu­sam­bands­ins og eru nokk­ur þeirra nú þegar far­in að semja utan þess, meðal þeirra eru Danmörk og Austurríki.

Ólafur segist telja það hafa verið mjög skynsamlegt að fara þá leið, að Ísland tæki þátt í bóluefnasamstarfi Evrópusambandsins og EES-landanna, til að tryggja okkur aðgang að bóluefnum „ekki hvað síst í ljósi þess að okkur hefur gengið vel að stýra faraldrinum.“

Aðgengi ekki minnkað þrátt fyrir gott gengi

„Færa má fyrir því góð rök að þetta fyrirkomulag hafi tryggt okkur aðgang að bóluefnunum og gott gengi okkar í baráttunni við faraldurinn hefur ekki minnkað aðgengi okkar að bóluefnunum og við fáum þau á sama hraða og önnur lönd,“ segir Ólafur Þór.

Ólafur Þór Gunnarsson.
Ólafur Þór Gunnarsson.

Hann segir mjög eðlilegt að þau lönd sem eru utan bóluefnasamstarfs ESB og EES leiti allra leiða. „En mér þætti eðlilegt að þau lönd sem eru inni í samstarfinu, ræddu það á vettvangi samstarfsins með hvaða hætti væri hægt að útvega fleiri skammta fyrir alla.“

Ólafur Þór vitnar í þessu sambandi í orð dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), sem sagði: „Við vinnum ekki bug á þessum faraldri nema að unninn sé bugur á honum alls staðar“.

„Þess vegna er svo mikilvægt að menn átti sig á því að það er öll heimsbyggðin að berjast við sama faraldurinn og það gagnast lítið að einhver stök ríki nái einhverju forskoti - faraldurinn verður eftir sem áður alveg jafn mikið vandamál þangað til að búið er að ráða niðurlögum hans alls staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert