Forðuðu sér um leið og boðið barst

Ásta ræðir við blaðamann mbl.is.
Ásta ræðir við blaðamann mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum aðeins að kanna þetta, en síðan byrjaði óróleikinn og þá var best að fara til baka,“ segir Ásta Rut Hjartardóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við blaðamann mbl.is í grennd við fjallið Keili.

Óróa­púls hófst kl. 14.20 og mæl­ist á flest­um jarðskjálfta­mæl­um og er staðsett­ur suður af Keili við Litla-Hrút, en slík merki mæl­ast í aðdrag­anda eld­gosa. Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá Al­manna­vörn­um, seg­ir að þetta þýði að lík­lega geti byrjað að gjósa inn­an nokk­urra klukku­stunda.

Ásta var ásamt fleiri sérfræðingum við mælingar í grennd við Keili, en ætlunin var að fara með dróna yfir svæðið þegar veðrið væri betra. Hún var spurð hvernig tilfinning það hefði verið að fá skilaboð um óróann:

„Það er ekkert annað en bara að ganga af stað, þegar maður fær slík boð,“ segir Ásta en hún var þó ekki í miðju svæðinu þar sem líklegast þykir að sprunga opnist.

„Ef svo hefði verið þá hefði tilfinningin verið önnur, ég get alveg sagt þér það,“ segir hún létt í bragði.

Hópurinn ætlaði sér að nota drónann til að kanna hvort einhverjar sprungur væru á yfirborðinu en þannig er hægt að sjá hvort kvika færist nær yfirborðinu. 

mbl.is