Getur lifað í vellystingum á hagnaðinum

Helgi Magnús (til hægri) í Hæstarétti í morgun ásamt Herði …
Helgi Magnús (til hægri) í Hæstarétti í morgun ásamt Herði Felix Harðarsyni, lögmanni Júlíusar Vífils. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákæran gegn Júlíusi Vífli Ingvarssyni, fyrrverandi borgarfulltrúa, byggði á því að geymsla fjármuna að upphæð 131-146 milljónir króna á erlendum bankareikningum sé refsiverð. Á þeim tíma hafi Júlíus haft í vörslu ávinning af skattalagabrotum og gat nýtt hann hvenær sem er sér og sínum til gagns og gamans.

Þetta kom fram í máli Helga Magnúsar Gunnarsson vararíkissaksóknara í Hæstarétti þegar áfrýjun Júlíusar var tekin fyrir.

Landsréttur dæmdi Júlíus Vífil í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi á síðasta ári fyrir peningaþvætti með því að hafa geymt sem nemur á bilinu 131-146 milljónum króna á erlendum bankareikningum . Í niðurstöðu Landsréttar var það talið yfir vafa hafið að sá hluti þeirra fjármuna sem hefðu verið inni á umræddum bankareikningum og ákært væri fyrir hefði verið ólögmætur ávinningur af skattalagabroti.  Þá taldi Landsréttur það ekki hafa þýðingu að frumbrotið sem ávinningurinn stafaði frá hefði verið fyrnt þegar rannsókn málsins hófst.

Helgi Magnús Gunnarsson.
Helgi Magnús Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fordæmisgildi

Helgi Magnús sagði málið nokkuð sérstakt og hafa ákveðið fordæmisgildi um túlkun fyrningarreglna. Hann sagði mál á borð við peningaþvætti og spillingu hafa fengið aukið væri í alþjóðlegu samhengi. Mikilvægt sé fyrir ákæruvaldið og lögregluna að vita hvar mörkin liggja í túlkun ákvæðis um fyrningu og m.a. þess vegna hafi ákæruvaldið tekið undir áfrýjun málsins til Hæstaréttar. Hann bætti því við að enginn ágreiningur sé uppi um að skattalagabrotin séu fyrnd.

Helgi sagði að um væri að ræða greiðslur sem Júlíus þáði í tengslum við störf sín hjá Ingvari Helgasyni og að hann hafi ekki neitað því að hafa ekki talið þær fram. Aftur á móti hafi hann neitað því að þetta hafi verið skattskyldar tekjur á Íslandi. Júlíus hafi fært peningana á reikninga í Sviss í eigu aflandsfélaga í Panama. Varðandi fyrningarfrest sagði hann það eðlilega niðurstöðu að viðurkenna að ákærði geti lifað í vellystingum á hagnaði af brotum sínum.

Helgi tók m.a. dæmi um vörslu barnakláms. Það hafi ekki verið refsivert á sínum tíma en 20 árum síðar, ef það var enn í vörslu sama aðila, teldist eðlilegt að refsa fyrir það í dag. Það sama eigi að gilda í málinu gegn Júlíusi Vífli.

mbl.is