Grindvíkingar rólegir en tilbúnir að rýma

Einmana bifreið á ferðinni á Reykjanesinu nú síðdegis.
Einmana bifreið á ferðinni á Reykjanesinu nú síðdegis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þessar hrinur sem hafa gengið yfir síðustu daga hafa færst fjær Grindavík, svo að við erum komin í meira skjól. Miðað við núverandi upplýsingar er hraunflæði til okkar ekki inni í myndinni,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við mbl.is. 

Búið að loka slóðum

Hann segist frekar hafa hugann við gasuppstreymi og að koma í veg fyrir að fólk fari nálægt upptökum þess, verði af gosi.

„Auðvitað er þetta spurning um gasið, ef það kemur þarna upp, að gæta að því að vera ekki að koma of nálægt upptökunum og koma í veg fyrir innöndun á því [...] Við erum búin að loka slóðum sem liggja inn undir og nálægt þessu svæði frá okkur, svo að ekki sé verið að fara í skoðunarferðir,“ segir Fannar.

Hann segir ólíklegt að gasið geti valdið hættu í Grindavík þegar svona vindasamt er, mögulegt sé að það geti valdið óþægindum. „Það eru óverulegar líkur á því að þetta valdi einhverjum vandræðum,“ segir Fannar.

„Við erum með mjög viðamiklar viðbragðs- og rýmingaráætlanir sem ná til sveitarfélagsins hjá okkur. Rýmingaráætlanir eru miðaðar við stofnanir bæjarins, hverfi og íbúðar- og atvinnuhúsnæði eftir atvikum þannig að þær eru bara skilgreindar niður á mannvirki og svæði - það fer eiginlega eftir því hvað það er sem við þurfum að bregðast við.“

Hann segir björgunarsveitina vera í viðbragðsstöðu sem og lögregluna í bænum og almannavarnanefndina.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. Ljósmynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert