HSA tekur við tveimur hjúkrunarheimilum

HSA mun taka að sér rekstur hjúkrunarheimilisins Uppsala á Eskifirði. …
HSA mun taka að sér rekstur hjúkrunarheimilisins Uppsala á Eskifirði. Einnig tekur stofnunin að sér rekstur Hulduhlíðar á Fáskrúðsfirði. mbl.is

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) tekur við rekstri hjúkrunarheimilanna Hulduhlíðar á Eskifirði og Uppsala á Fáskrúðsfirði 1. apríl. Áður hafði sveitarfélagið Fjarðabyggð séð um reksturinn, en það sagði upp rekstrarsamningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimilanna tveggja 22. september síðastliðinn og lýkur samningstímanum um næstu mánaðamót. Á hvoru heimili um sig eru hjúkrunarrými fyrir 20 íbúa.

Greint var frá því í síðasta mánuði að Fjarðabyggð hefði greitt 130 milljónir með hjúkrunarheimilunum síðustu þrjú ár, þar af 60 milljónir í fyrra. Er sveitarfélagið eitt fjögurra á landinu sem sögðu upp samningi sínum um rekstur hjúkrunarheimila, en það gerðu einnig Akureyrarbær, Vestmannaeyjabær og Höfn.

Umræður um rekstur hjúkrunarheimilanna og fjármögnun þeirra rötuðu nýlega í umræður á þing, en þar tókust þau Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á um málið og sakaði Logi ríkisstjórnina um „skortstefnu“ þegar kæmi að hjúkrunarheimilum.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að Sjúkratryggingar hafi auglýst eftir áhugasömum til að taka við rekstrinum, en engin viðbrögð hafi borist við þeirri auglýsingu. Hjá HSA sé hins vegar fyrir hendi þekking og reynsla af rekstri hjúkrunarheimila, en stofnunin rekur hjúkrunarheimilið Dyngju á Egilsstöðum, hjúkrunarheimilið Fossahlíð á Seyðisfirði og hjúkrunarheimili Umdæmissjúkrahúss Austurlands í Neskaupstað.

Haft er eftir Guðjón Haukssyni forstjóra HSA að hagur íbúa verði í fyrirrúmi. „Íbúar heimilanna og hagur þeirra verður í fyrirrúmi með áherslu á að tryggja þeim áframhaldandi góða þjónustu. Ég hlakka til að vinna með starfsfólki heimilanna og halda áfram að móta og efla þjónustu við aldraða íbúa Austurlands,“ er haft eftir honum.

Guðjón mun funda með starfsfólki hjúkrunarheimilanna hið fyrsta til að ræða næstu skref til undirbúnings því að HSA tekur að sér reksturinn um næstu mánaðamót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert