„Hvað eigum við að segja við börnin okkar?“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, benti á Alþingi í dag á að Geimvísindastofnun Evrópu, ESA, auglýsti um þessar mundir laust starf geimfara.

„Og þá má spyrja: Hvað eigum við að segja við börnin okkar þegar þau dreymir um að verða geimfarar? Ja, við segjum þeim það að þau þurfi að byrja á því að verða útlendingar. Þau þurfi að búa í landi, þar sem er tekið þátt í geimvísindastarfi eins og hjá Geimvísindastofnun Evrópu,“ sagði hann.

„Þau gætu farið til Lúxemborgar, þar sem eru um það bil 620 þúsund manns og þó blómlegur geimiðnaður og menntun, sér í lagi. Eða til Möltu, þar sem eru 520 þúsund manns, og orðið ríkisborgarar þar og þá mögulega geimfarar einhvern tíma í framtíðinni.“

Ýmislegt geimvísindastarf

Þrátt fyrir að Ísland taki ekki þátt í starfi stofnunarinnar sé ýmislegt geimvísindastarf hér á landi. Sagðist Helgi vilja nefna þrjá hluti í þeim efnum.

„Í fyrsta lagi, á Íslandi er nú þegar starfrækt geimvísinda- og tækniskrifstofa Íslands, á ensku Space Iceland, en það er þjónustuskrifstofa fyrir geimvísinda- og tækniiðnaðinn á Íslandi sem á í samstarfi við aðila úti um allan heim, til þess að draga hingað erlenda fjárfestingu og samstarf í íslenskum geimiðnaði.“

Skrifstofan eigi um 40 samstarfsaðila innan lands og utan.

„Í öðru lagi vil ég nefna ESA Kópernikus Masters, sem er alþjóðleg samkeppni um lausn vandamála með því að nýta gögn um jarðtengingu sem íslenska fyrirtækið Svarmi sigraði árið 2018 með verkefninu Myriad, sem var verkefni um sjálfvirkan dróna.“

Í þriðja lagi nefndi hann skoska eldflaugafyrirtækið Skyrora, sem skaut upp tilraunaskoti á Íslandi á síðasta ári. Vonir stæðu til þess að þau yrðu tvö til viðbótar.

„Ísland á ekkert minna erindi í geimvísindastarf en aðrar þjóðir,“ sagði Helgi Hrafn.

mbl.is