Katrín hvetur fólk til að halda sig fjarri óróanum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fylgist náið með gosóróanum á Reykjanesskaga og stjórnkerfið er í viðbragðsstöðu. Hún hvetur fólk til þess að fara varlega og hætta sér ekki nálægt óróasvæðinu.

„Þetta er svo sem ekki byrjað, en eins og það lítur út núna, þá er þetta í takt við það sem vísindamenn hafa verið að spá. Það er ekki talið að þó það verði gos, að það ógni byggð eða einhverjum mannvirkjum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Katrín brýnir samt fyrir fólki að fara varlega. „Nú er mikilvægt fyrir alla að fara að öllu með gát og vera ekki að fara að svæðinu, líkt og Almannavarnir hafa beðið fólk um að láta vera.“

Forsætisráðherra segir að gosóróinn hafi rutt öðru til hliðar á dagskránni og hún fylgist grannt með þróuninni. „Svo verður upplýsingum miðlað jafnóðum og þær berast, eins og ég held við séum orðin nokkuð góð í undanfarin misseri.“

Eftir að jarðskjálftahrinan hófst í liðinni viku var ljóst að eitt og annað gæti gerst og hefur hún m.a. fundað með fulltrúum Almannavarna vegna þess og verið reglulega í símasambandi við þær. „Við tókum stöðufund um þessi mál og fórum yfir allar sviðsmyndir á föstudaginn og svo höfum við dómsmálaráðherra verið í stöðugu sambandi um þessi mál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert