Margir skjálftar en minna um „þrista og fjarka“

Jarðskjálftarnir eiga margir hverjir upptök sín í grennd við Keili.
Jarðskjálftarnir eiga margir hverjir upptök sín í grennd við Keili. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Þetta heldur bara áfram,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Alls hafa um 650 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti.

„Það er þó minna um þrista og fjarka,“ segir Elísabet en klukkan 02:12 í nótt varð skjálfti af stærðinni 4,1 og fjór­um mín­út­um síðar ann­ar sem var 3,2 að stærð.

Rétt fyr­ir fjög­ur í nótt varð síðan ann­ar skjálfti upp á 3,2. Upp úr klukk­an 6 í morg­un varð skjálfti sem mæld­ist 3 stig.

Elísabet segir að skjálftarnir séu svipað margir og áður þótt þeir séu ekki jafn stórir. 

Hún segir enn fremur að ekki sé óeðlilegt í svona hrinum að virknin minnki og taki sig síðan upp aftur. Sérfræðingar Veðurstofunnar funda með vísindaráði og almannavörnum í dag þar sem farið verður yfir þróun mála á Reykjanesskaga.

mbl.is