„Öndum rólega“

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ. mbl.is/Sigurður Bogi

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sendi bæjarbúum bréf í gær þar sem hann ítrekaði að bæjaryfirvöld væru að fylgjast vel með framvindunni í jarðskjálftavirkni við Fagradalsfjall. „Tónninn í þessu hjá mér er bara: Öndum rólega, við skulum ekki vera að búa til meira mál úr þessu en efni og aðstæður gefa tilefni til samkvæmt því sem sérfræðingar segja,“ sagði Kjartan Már í samtali við Morgunblaðið í gær. Ljóst var af bréfi hans að kallað hefði verið eftir upplýsingum frá yfirvöldum og almannavörnum, enda hefur komið fram að möguleiki sé á eldgosi og þar með gasmengun á svæðinu.

Óánægju hefur gætt í Facebook-hópum íbúa vegna þess sem einhverjir hafa talið skort á upplýsingum. „Mér finnst ósköp eðlilegt að fólk hafi áhyggjur af þessu en það sem við erum að segja er að við höfum þær líka, sem búum líka hér og erum að vesenast í þessu alla daga. Okkur er alveg jafnmikið annt um eigin heilsu og öðrum og hér er enginn að fela neitt eða segja ekki allan sannleikann. Svona er bara staðan og svo getur hún verið breytt eftir klukkustund, við vitum ekkert um það,“ sagði Kjartan. Hann tók einnig fram að bæjaryfirvöld vissu ekki meira en fram kemur í fjölmiðlum hverju sinni. Í bréfinu, sem Kjartan birti í Facebook-hópi Reykjanesbæjar, sagði að ef til mögulegrar gasmengunar kæmi, yrðu viðbrögðin kynnt rækilega fyrir öllum á svæðinu. „Kannski væri bara best að fólk færi hvergi en héldi sig innan dyra heima með lokaða glugga,“ skrifaði Kjartan.

Ef rýma þyrfti staði myndi þá líklega gefast til þess góður tími. Eins og bæjarstjórinn víkur að í bréfi sínu, eru meiri líkur en minni á að mögulegt gos verði í flokki lítilla eða meðalstórra gosa. Hraunflæðið yrði að hans sögn varla svo mikið að það ylli skemmdum á innviðum, þó að vissulega sé erfitt að spá fyrir um það. Jarðfræðingar hjá Veðurstofunni sögðu við Morgunblaðið í gærkvöldi að gert væri ráð fyrir að kvikuinnskot hefði orðið á svæðinu, en það þýddi ekki að það leiddi til goss á endanum. Algengara er að kvikan storkni áður en til þess komi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »